Um fjórum tonnum af kóngakrabba var stolið frá norska fyrirtækinu Norway King Crab í um þar síðustu helgi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu sem Fiskeribladet vitnar til. Haft er eftir forstjóra Norway King Crab að þjófnaðurinn sé afar svekkjandi því fyrirtækið eigi ekki meira af frystum kóngarkabba til að anna eftirspurn veitingahúsa. Þjófarnir hafi gengið afar fumlaust til verks að næturlagi og innbrotið ekki uppgötvast fyrr en starfsfólk opnaði frystigám snemma að morgni.

Verðmæti hins stolna krabba er sagt vera jafnvirði tæplega 35 milljóna íslenskra króna.

Nánar er fjallað um málið í Fiskeribladet.

Á Vísindavef Háskóla Íslands segir að á sjöunda áratug síðustu aldar hafi kóngakrabba verið sleppt í Barentshaf til að koma upp nýtanlegum stofni í rússneskri landhelgi.

„Það leiddi til þess að krabbinn dreifðist vestur á bóginn meðfram stönd Noregs og hefur hann hugsanlega valdið mikilli röskun á vistkerfinu við strendur Noregs og Rússlands,“ segir á Vísindavef HÍ.