Krókaaflamarksbáturinn Fjölnir GK er minnsti báturinn í Vísisflotanum. Á Fjölni eru tvær áhafnir. Rætt er við Júlíus Magnús Sigurðsson og Kristinn Arnberg Kristinsson skipstjóra á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Voru þeir báðir mjög sáttir við mánuðinn en aflinn var um 125 tonn í einungis 12 róðrum. Júlíus sagði að eins og venjulega hefðu hrygningarstoppin mótað mánuðinn.

„Litla stoppið svonefnda hófst 1. apríl en þá er öll veiði bönnuð út að fjórum mílum. Þetta hafði mikil áhrif en aflinn hjá okkur datt niður úr 12-14 tonnum í róðri niður í 6-8 tonn þegar við þurftum að sækja dýpra. Stóra stoppið varir síðan frá 11. til 21. apríl en þá er allri grunnslóðinni lokað, allt út að fimmtíu mílum. Við rerum ekkert í stóra stoppinu enda ekkert veður til þess,” sagði Júlíus.

Tekjur ekki dregist saman þrátt fyrir skiptikerfi

Kristinn sagði að þegar stóra stoppinu lauk hefði verið hörkufiskirí. „Við fórum sex róðra í mánuðinum eftir að stóra stoppinu lauk og aflinn í þeim var samtals um 85 tonn. Þetta voru 12-19 tonn í róðri sem er býsna gott. Staðreyndin er sú að það hefur gengið vel hjá okkur á Fjölni og við getum ekki kvartað. Þegar skiptikerfi var tekið upp á bátnum þann 1. september sl. óttuðust menn að tekjur myndu dragast saman en það hefur ekki gerst og menn eru bara ánægðir með fyrirkomulagið,” sagði Kristinn.

Í morgun var Fjölnir í hörkufiskiríi á Grindavíkurleirnum um tvær mílur frá höfninni í Grindavík.