Laxey, félag sem byggir upp landeldi á laxi í Vestmannaeyjum, lauk í síðustu viku sex milljarða hlutafjáraukningu og lauk þar með fjármögnun á 4.500 tonna framleiðslu á laxi á landi, sem mun einnig innihalda seiðastöð og framleiðslu á stórseiðum.
Þetta kemur fram á vefsíðu Laxeyjar. Þar segir að með lokun þessarar fjármögnunarlotu hafi Laxey alls safnað meira en 12 milljörðum króna í hlutafé.
„Blue Future Holding, sem er hluti af þýsku fjölskyldusamsteypunni EW Group, er leiðandi fjárfestir í útboðinu, en meðal annarra fjárfesta má nefna Nutreco, sem er stærsti framleiðandi á fiskifóðri í heimi, Seaborn, leiðandi söluaðila á laxi, Kjartan Ólafsson og öflugt hollenskt sjávarútvegsfyrirtæki. Auk þeirra tóku þátt fjöldi öflugra fjárfesta, og má þar á meðal nefna Almenni lífeyrissjóðurinn, Festa lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja og Snæból. Hlutafjáraukningin kemur nánast eingöngu frá nýjum hluthöfum en um 25 nýir fjárfestar komu inn í félagið. Fulltrúi frá Blue Future Holding mun taka sæti í stjórn LAXEY og er Kjartan Ólafsson einnig tilnefndur í stjórnina,“ segir á laxey.is.
Eftirfarandi er framhald fréttatilkynningar um málið á vefsíðu Laxeyjar:
„Uppbygging verkefnisins er í fullum gangi og seiðastöðin er þegar komin í rekstur. Nú þegar hafa tveir hópar hrogna verið teknir inn í stöðina sem vaxa í samræmi við áætlanir. Seiðastöðin getur framleitt 4 milljónir seiða árlega og verður fullbúin haustið 2024. Framkvæmdir eru á áætlun fyrir áframeldið, sem mun nýta hagstæðar náttúrulegar aðstæður í Vestmannaeyjum. Þar sem LAXEY verður með umtalsverða umframframleiðslu á seiðum á fyrstu árum starfseminnar hefur félagið tekið þá ákvörðun að nýta sjótankana í áframeldinu fyrir framleiðslu stórseiða til sölu, samhliða framleiðslu á laxi til manneldis. Sala á stórseiðum til hefðbundins eldisiðnaðar mun draga úr lúsavandamálum með því að stytta eldistímann í sjó.“
Sterkur stuðningur, sterkir fjárfestar
Hingað til hefur LAXEY aðallega verið fjármagnað af fjölskyldu Sigurjóns Óskarssonar og með innkomu hinna öflugu fjárfesta, sem innihalda m.a. leiðandi fyrirtæki í alþjóðlegum laxeldisiðnaði, skapast mjög sterkur grundvöllur fyrir frekari vexti LAXEY. Sérþekking hluthafahópsins mun nýtast sérstaklega vel í uppbyggingunni.
Verkefnið mun skapa umtalsverð atvinnutækifæri og uppbyggingu í Vestmannaeyjum, samfélagi sem hefur sterka sjávarútvegssögu.
„Við erum himinlifandi með þann stuðning sem LAXEY hefur frá upphafi haft frá núverandi fjárfestum okkar, og nú hinn mikla áhuga sem við fengum frá nýjum fjárfestum. Það er til vitnis um að stefna okkar um að byggja sjálfbært og fjárhagslega hagkvæmt laxeldi í Vestmannaeyjum fellur vel að markmiðum fjárfesta,“ sagði Lárus Ásgeirsson, stjórnarformaður LAXEY. „Þessi hlutafjáraukning og áframhaldandi þróun verkefnisins undirstrikar skuldbindingu okkar til sjálfbærs fiskeldis, uppbyggingu á nýjum iðnaði í Vestmannaeyjum og eflingu laxeldisiðnaðar á Íslandi.“
Norski fjárfestingabankinn Arctic Securities var umsjónaraðili hlutafjárútboðsins, en Mar Advisors voru fjármálaráðgjafar fyrir LAXEY.“