Nýliðið ár var um margt mjög sérstakt, að sögn Ragnars Smára Guðmundssonar, framkvæmdastjóra Fiskmarkaðar Íslands. Það sem einkum setti svip sinn á markaðinn fiskverð sem var í sögulegu hámarki.

Þetta var fyrsta heila ár Ragnars í starfi sem framkvæmdastjóri en hann var áður fjármálastjóri hjá flutningafyrirtækinu Ragnari og Ásgeir ehf. Það má því segja að hann hafi byrjað sinn starfsferil hjá Fiskmarkaði Íslands með látum.

„Síðasta ár byrjaði mjög vel þótt vertíðin hérna fyrir vestan hafi farið fremur rólega af stað. En það var jafnt og stöðugt framboð af fiski. Svo tók við strandveiðin um sumarið sem varð ævintýralega góð. Verð voru í hæstu hæðum og veiðin mikil alls staðar. Og núna í haust hefur veiðin verið einstaklega góð á öll veiðarfæri. Og þessi háu verð hafa ekkert gefið eftir,“ segir Ragnar.

Ragnar Smári Guðmundsson, framkvæmdastjóri Fiskmarkaðar Íslands.
Ragnar Smári Guðmundsson, framkvæmdastjóri Fiskmarkaðar Íslands.

Meðalverð á öllum tegundum í fyrra á öllum mörkuðum var tæpar 360 krónur kílóið. Meðalverð á þorski var rúmar 440 krónur kílóið. Þetta er mikil hækkun frá árinu 2021 þegar meðalverð á þorski allt árið var 362 krónur kílóið.

Óhemjugóð veiði allt í kringum landið

Fiskmarkaður Íslands rekur átta fiskmarkaði; á Arnarstapa, Grundarfirði, Ólafsvík, Stykkishólmi, Reykjavík, Rifi, Skagaströnd, Þorlákshöfn og flokkunar- og slægingarstöð á Rifi. Í gegnum markaðina fóru alls tæp 106 þúsund tonn af fiski á síðasta ári sem er talsvert minna magn en árið 2021 þegar um 115 þúsund tonn voru seld. Þetta skýrist meðal annars af skerðingum í aflamarki. Fiskmarkaður Íslands selur í kringum 30% af þeim fiski sem boðinn er upp á fiskmörkuðum innanlands.

Ragnar segir það sína tilfinningu að útgerðir stýri sínum veiðum í mun meiri mæli núna en oftast áður. Fyrstu dagar þessa árs fari rólega af stað enda sé fiskframboð yfirleitt með minna móti í janúar. Í lok mánaðar megi búast við að meira líf færist í markaðina.

„Það einróma álit manna að það sé óhemjugóð veiði allt í kringum landið. Í ljósi þessa eru ekki allir á eitt sáttir með þær skerðingar sem hafa komið fram,“ segir Ragnar.

Ragnar Smári Guðmundsson, framkvæmdastjóri Fiskmarkaðar Íslands.