Senn líður að því að stjórnvöld taki afstöðu til ráðgjafar Hafrannsóknastofnunar sem er grunnurinn að útgáfu á aflaheimildum fyrir hvert fiskveiðiár. Víki sjávarútvegsráðherra ekki frá rótgróinni og áratugalangri hefð mun hann fylgja ráðgjöfinni fyrir 2024/2025 í einu og öllu. Ráðgjöfin fyrir næsta fiskveiðiár var kynnt 7. júní sl. og er þar mælt með nánast óbreyttri veiði frá síðasta fiskveiðiári.
Sjómenn og útgerðaraðilar hafa margir gagnrýnt Hafrannsóknastofnun og sagt hana vilja hafa sem minnst samstarf með þeim sem tengjast málinu með beinum hætti, þ.e. sjómönnum og útgerðaraðilum. Þeir segja talsvert vanta upp á fagleg vinnubrögð við stofnmælingar og að ekki sé sóst eftir sjónarmiðum þeirra sem starfa í greininni. Þeir hafa lýst þeim sjónarmiðum að fiskiskipin verði nýtt í auknum mæli til þess að safna gögnum sem styðji betur við stofnmælingar. Þá hefur verið bent á að nota megi gervigreind í þessu skyni sem og ómönnuð för.
Greitt fyrir með aflamarki
Hafrannsóknastofnun hefur þó árum saman leigt skip bæði í haust- og vorrall og nýlega auglýsti stofnunin eftir tilboðum í leigu á togurum til stofnmælinga að hausti og vori. Leigan fyrir skip verði greidd með aflamarki. Um er að ræða útboð vegna djúpslóðar í haustralli ásamt Norðaustur- og Suðursvæðum í marsralli til eins árs (haustrall 2024 og marsrall 2025) með möguleika á framlengingu til fleiri ára ef aðilar sammælast um það. Gert er ráð fyrir fjórum vikum í október og þrem vikum frá lokum febrúar fram í mars.
Fiskifréttir beindu nokkrum spurningum til Hafrannsóknastofnunar sem lúta að þessu máli, m.a. hvort stefnubreyting verði núna hvað varðar fjölda skipa. Svar stofnunarinnar voru þau að ekki verði stefnubreyting hvað varðar fjölda skipa né greiðsluformið.
Ekki stefnt að auknu samstarfi
„Allur fiskur sem veiddur er fyrir Hafrannsóknastofnun telst til rannsóknarafla og er utan aflamarks en aflinn er engu að síður skráður á skipakrárnúmer leigubátsins. Þetta þýðir að útgerðir fá útgefinn kvóta í kvótabundnum fisktegundum í sama magni og veitt var í verkefninu. Greiðsluformin fyrir rannsóknarverkefnin (leiguskipin) hafa aðallega verið þrenns konar og ráðast meðal annars af þeim kostnaði sem hlýst af því að sinna þeim. Greitt er hlutfall af verðmæti landaðs rannsóknarafla (sem alltaf er seldur á fiskmarkaði), greitt er með aflamarki samkvæmt tilboði lægstbjóðanda og í þriðja lagi er greitt ákveðið leigugjald sem felur í sér að skip er leigt gegn ákveðnu verði á sólarhring. Þegar svo háttar til, svo sem í togveiðum, að greiðsluform eitt dugar ekki fyrir kostnaði er greitt til viðbótar með viðbótaraflaheimildum. Greiðsla í aflamarki ræðst af boði leigusalans. Til dæmis verða „greidd“ 320 tonn af slægðum þorski fyrir 179 tog í næsta haustralli 2024 á grunnslóð, auk hluta í lönduðu aflaverðmæti rannsóknarafla,“ segir í svari Guðmundar I. Bergþórssonar, sviðsstjóra hjá Hafrannsóknastofnun. Spurður um hvort stefnt sé að auknu samstarfi við útgerð og sjómenn í tengslum við stofnmælingar, segir Guðmundur: „Það hefur mér vitanlega ekki verið mörkuð sú stefna en þess ber að geta að nú þegar er töluvert og gott samstarf við útgerðir og sjómenn í stofnmælingarverkefnum (netarall, haustrall og marsrall) sem byggir að langmestu leyti á útboðum í þessum efnum.“