Fiskistofa hefur samþykkt beiðni veiðifélaga við Eyjafjörð um að sett verði á bann við netaveiði göngusilungs í firðinum.
Veiðifélögin vildu að bannið myndi vara í tíu ár en Fiskistofa áformar að fara að ráðum Hafrannsóknastofnunar um bann til fimm ára sem taki þá enda í árslok 2029. Þetta kemur fram í bréfi Fiskistofu til eigenda sjávarjarða í Eyjafirði þar sem þeim er boðið að senda inn andmæli fyrir 12. apríl næstkomandi.
Veiðin heldur áfram að dragast saman

Í bréfi Fiskistofu kemur fram að bleikjuveiði i Eyjafirði hafi dregist mjög saman á undanförnum árum. Þann 25. apríl 2023 hafi Fiskistofu borist beiðni frá veiðifélögunum að sett yrði á tíu ára netaveiðibann. Óskað hafi verið eftir umsögn Hafrannsóknastofnunar sem hafi metið það svo í júní 2023 að bleikjustofnar ánna við Eyjafjörð hefðu ekki veiðiþol við þáverandi aðstæður. Frá því þá hefði veiðin enn dregist saman. Lagði Hafrannsóknastofnun til bann í öllum Eyjafirði, það er að segja innan línu sem dregin er frá Siglunesi að Gjögurtá.
Samhliða banninu hyggst Fiskistofa grípa til aðgerða til verndar bleikjustofna á vatnasvæðum í Eyjafirði.
Vitnað er til ákvæða í lögum um lax- og silungsveidi sem varða veiðar á göngusilungi. Þær séu bannaðar en þó heimilar eigendum sjávarjarða samkvæmt sömu reglum og gildi um netaveiðar silungs í ósöltu vatni.