„Ég er að selja bátinn til fyrirtækis sem ætlar að reka hann áfram og ég verð skipstjóri hjá þeim eitthvað áfram,“ segir Einar Hálfdánarson, eigandi og skipstjóri á Eyja NK.

Einar hefur samið um sölu á bátnum sem hann gerir út og á heimahöfn í Neskaupstað. Með Eyja fylgir 10,2 prósent af sæbjúgnakvótanum á Austurlandi sem nemur tæplega 6 prósent af heildarkvótanum í landinu í tegundinni. Eru það ríflega 190 tonn sem fylgja Eyja á yfirstandandi fiskveiðiári.

Að sögn Einars ganga kaupin formlega í gegn 1. september er nýtt kvótaár hefst.

„Ég er bara orðinn gamall karl,“ svarar Einar spurður um ástæðu sölunnar. Reyndar er Einar aðeins 61 árs

Veiðir síðustu tonnin í ágúst

„Ég get ekkert fullyrt um það, en ég reikna með því,“ svarar Einar aðspurður hvort Eyji verði áfram gerður út frá sama stað. Hann kveðst ekki vita hvort kaupandinn vilji að nafn hans verði gefið upp að svo stöddu.

Einar Hálfdánarson. FF Mynd/Þorgeir Baldursson
Einar Hálfdánarson. FF Mynd/Þorgeir Baldursson

„Það er partur af samkomulaginu að ég vinni fyrir þá,“ segir Einar. „Ég mun kynna þessar veiðar sem báturinn hefur verið á fyrir nýjum skipstjórnarmönnum og nýrri áhöfn. Og mun fylgja þessu inn í framhaldið.“ Að sögn Einars hefur áhöfnin á Eyja verið upp í þrjá menn. „Ég á eftir nokkur tonn af sæbjúgum sem ég þarf að veiða í ágúst. Svo fæ ég bara skilaboð um það hvað ég á að gera í september,“ segir hann um verkefnastöðuna.

Versti veturinn til þessa

Kvótaárið segir Einar hafa gengið vel í rekstrinum hjá honum hvað aflann snerti. Hins vegar hafi veturinn sem leið verið afar strembinn vegna afleitrar veðráttu. „Þetta er einhver versti vetur sem ég hef verið á sjó í þessu úthaldi. En meðalaflamagn á róður í sæbjúgum held ég að hafi verið jafn mikið eða jafnvel betra heldur en oft áður. Og ígulkerjaveiðarnar gengu bara ágætlega þegar hægt var að stunda þær,“ segir Einar sem kveðst ekki vita hvað taki við þegar kaflanum með Eyja ljúki.

Sæbjúga.
Sæbjúga.

„Ég er bara ekki skyggn og veit ekkert hvað ég er að fara að gera en ég fer örugglega að gera eitthvað – ef ég verð bara lifandi og með heilsu,“ svarar Einar og þvertekur fyrir að ætla að setjast í helgan stein. Hann hafnar því ekki að hann ætla að leika sér – í vissum skilningi að minnsta kosti. „Ég er alltaf að leika mér og geri ekkert nema það sem ég hef gaman af. Lífið er bara leikur.