Strandveiðar hafa gengið ágætlega í Súgandafirði það sem af er og það eina sem hamlar veiðunum er í raun veðrið. Sigfús Bergmann Önundarson, sem gerir út Sigfús B ÍS, segir að flestir nái skammtinum en veðrið eigi það til að hamla veiðum enda annað veðurkerfi á norðanverðum Vestfjörðum en sunnanverðum.

„Ég held að enginn hafi náð að róa alla daga hérna á Súgandafirði. Þeir í Bolungarvík geta farið í Djúpið ef það er bræla. En hérna erum við alltaf að glíma við veðrið og það ætti að duga til þess að hamla okkur og þyrftum ekki aðrar takmarkanir við veiðarnar,“ segir Sigfús.

Sigfús landaði sínum skammti sl. fimmtudag en honum náði hann dálítið langt úti, eða á svokallaðan 30 mílna hrygg. Meðalvigtin var um fimm kíló og einn risi sem er fyrirsætan ásamt Sigfúsi á mynd Smára Karvels Guðmundssonar. Fiskurinn er mun smærri upp við landið og því sækja menn gjarnan lengra út á þessum árstíma og alla vega út fyrir tólf mílur. Algengt er að stærri bátar sæki 25 mílur út á Deildargrunn.

Vona að sem flestir mæti og hafi hátt

Einn pottur er í strandveiðunum og það gengur ört á hann. Sigfús segir stefna í að potturinn klárist um mánaðamótin júní-júlí. Í fyrra kláraðist hann 11. júlí og útlitið er enn dekkra núna hvað það varðar. „Menn hafa verið að berjast fyrir breytingum á þessu kerfi frá því það var sett á og lítið gerist í þeim efnum. Við höfum aldrei fengið þessa 48 daga sem okkur hefur verið lofað. Enda fer ekki saman hljóð og mynd þegar veiðarnar byggjast á sóknarkerfi og kvótakerfi. Það gengur ekki upp nema kvótinn sé í samræmi við dagafjöldann.“

Sigfús segir að nýr matvælaráðherra hafi beitt sér fyrir hagsmunum strandveiðimanna fyrir austan í atvinnuveganefnd í fyrra en sér sýnist að hún ætli að sitja hjá núna. „Ég vona auðvitað að það verði einhverjar breytingar en ég er ekki bjartsýnn á að svo verði miðað við reynslu síðustu ára. Það verður mótmælafundur núna 7. júní og ég vona bara að sem flestir mæti og hafi hátt. Ég fer hikstarlaust suður og þó nokkuð margir héðan af staðnum. Hérna frá Súganda eru 20-25 strandveiðibátar og þeir sem eiga heimangengt mæta örugglega.“