„Við hófum veiðar norðvestur af Látrabjargi og lentum þá í bölvuðu óhappi,“ segir Einar Ólafur Ágústsson, skipstjóri á Jóhönnu Gísladóttur GK í viðtali á vef Síldarvinnslunnar. Ísfisktogarinn kom til löndunar í Grindavík á föstudagsmorgun.
Einar segir í viðtalinu að ýmislegt hefði gerst á skipinu síðustu daga túrsins. „Pokinn slitnaði frá og við fengum hann í skrúfuna. Það þurfti að draga skipið inn á Patreksfjörð og þar var skorið úr skrúfunni og landað þeim 15 tonnum sem við vorum komnir með. Það var mest karfi. Síðan var haldið til veiða á ný og kastað í grunnkantinum út af Patreksfirði,“ segir skipstjórinn á svn.is.
Allt er gott sem endar vel
Þarna segir Einar að þeir hafi lent í fínni veiði og fyllt skipið á tveimur sólarhringum. „Það var mest ýsa en einnig þorskur og steinbítur. Við héldum til Grundarfjarðar og lönduðum þar. Þá var haldið strax til veiða á ný og fyllt á þremur dögum. Við vorum í tvo sólarhringa á Látragrunni og fengum þar mest steinbít og þorsk og síðan í einn í Kolluálnum og þar fékkst þorskur,“ segir Einar sem kveður fiskinn sem þarna fékkst hafa verið virkilega fallegan.
„Það má því segja að þessi lota hjá okkur hafi byrjað heldur illa en endað vel og allt er gott sem endar vel,“ er haft eftir Einari að lokum.