Margt var um manninn á Seafood Expo Barcelona 2022 sem haldin var dagana 26. - 28. apríl í Barcelona á Spáni. Fólk tók því fagnandi að fá að hittast og góður andi ríkti meðal íslensku sýnendanna.

Íslenska vörumerkið Icelandic Seafood fékk veglegan sess á sýningarbásum tveggja nytjaleyfishafa vörumerkja­félagsins Icelandic Trademark Holding ehf., Iceland Seafood International og Icelandic Japan. Vöru­merkjafélagið, sem er í eigu íslenska ríkisins, er eigandi vörumerkjanna Icelandic og Icelandic Seafood en Íslandsstofa hefur umsjón með daglegum rekstri félagsins.

Eins og kunnungt er á Icelandic vörumerkið sér langa, merkilega og farsæla sögu um hágæða íslenskar sjávar­afurðir.

Þjóðargjöf

Með sérstökum nytjaleyfissamningum hafa nytjaleyfishafar Icelandic Trademark Holding ehf. rétt á að nota Icelandic vörumerkið á þeim markaðssvæðum sem getið er um í nytjaleyfissamningi. Nytjaleyfis­hafar Icelandic vinna á grundvelli viðmiðunarreglna fyrir Icelandic vörumerkið og þurfa að uppfylla skilyrði sem lúta m.a. að íslenskum uppruna, ströngum gæðakröfum og gæðaeftirliti, rekjanleika, sjálfbærni og samfélagslegri ábyrgð. Stór hópur framleiðir fiskafurðir undir merkjum Icelandic Seafood og hann skipa íslenskir fiskframleiðendur vítt og breitt um landið.

Stefna Icelandic er að auka verðmæti og auðvelda markaðsaðgengi íslenskra sjávarafurða og þjónustu á erlendum mörkuðum á grundvelli gæða, sjálfbærni og uppruna. Ávinningur af rekstri félagsins skal allur nýttur í að vekja athygli á íslenskum sjávarútvegi og Icelandic vörumerkinu. Þannig er vörumerkið nýtt í þágu íslensks sjávarútvegs í heild sem samrýmist markmiði Framtakssjóðs Íslands með gjöf Icelandic vörumerkjanna til íslensku þjóðarinnar.