Útgerðarfélagið Bergur-Huginn var stofnað árið 1972 og ári síðar hóf störf hjá félaginu Guðmundur Arnar Alfreðsson vélstjóri, sama ár og hann lauk vélstjóranámi. Hann hefur allar götur síðan starfað hjá fyrirtækinu eða í samtals tæpa hálfa öld og sem útgerðarstjóri frá árinu 1986. Þau tímamót urðu í byrjun maí að Guðmundur Arnar varð sjötugur og hætti þá hjá fyrirtækinu.
Bergur-Huginn á sér þó eldri sögu því árið 1954 stofnuðu Kristinn Pálsson og tengdafaðir hans, Magnús Bergsson, útgerðarfélagið Berg hf. og keyptu vélbátinn Berg VE 44 til Vestmannaeyja. Þau félög sem stóðu að stofnun Bergs-Hugins árið 1972 voru Bergur hf. og Huginn hf. og var megintilgangur sameinaðs félags að kaupa skuttogara og hefja útgerð. Að baki sameiginlegu félagi voru bræðurnir Kristinn og Sævald Pálssynir ásamt Guðmundi Inga Guðmundssyni útgerðarmanns Hugins. 1983 var ákveðið að skipta upp félaginu. Sævald dró sig út úr því og hélt áfram útgerð Bergs. Síldarvinnslan í Neskaupstað festi kaup á Berg-Hugin árið 2012 og í október á síðasta ári keypti Bergur-Huginn útgerðarfélagið Berg og þar með lauk 68 ára sögu þess fyrirtækis.
Byrjaði á Berg VE
Guðmundur Arnar starfaði reyndar í eitt ár sem vélstjóri á Berg VE áður en hann hóf störf hjá Berg-Huginn.
„Ég byrjaði í Vélskólanum 1969 og fór síðan beint á Berg VE. Þá var þar fyrsti vélstjóri Vigfús Waagfjörð og ég var annar vélstjóri. Ég var bara peyjaskratti en var með réttindi. Við fórum beint á vertíð á netum. Svo vorum við á trolli yfir sumarið en ég var í tvö ár á Bergi,“ segir Guðmundur Arnar.
Þaðan lá leiðin yfir á nýsmíðina Vestmannaey VE árið 1972. Hún var ein af tíu sams konar skipum sem voru smíðuð fyrir íslenskar útgerðir í Japan. Guðmundur segir að þetta hafi verið góðir bátar enda margir þeirra enn þá í drift. Gamla Vestmannaey er nú gerð út frá Argentínu. Helstu nýjungarnar þá voru rafmagnstogspil.
„Ég man að það var gott fiskirí á vertíðinni. Ég gat keypt mér Range Rover eftir hálft ár og nú kostar vagn af því tagi um 30 milljónir kr. Það voru feikna góðar tekjur á þessum tíma. Þetta er fyrir kvótasetningu og menn bara í þorski eins og þeir vildu. Ég keypti mína fyrstu íbúð líka 1974. Það var nóg af fiski í sjónum og lítið pælt í verndun fiskstofnanna.“
Svo fór að fjara undan þeirri gósentíð sem verið hafði. Olíukreppan skall á haustið 1973 og hafði mikil áhrif á útgerðina. Það dró úr veiði. Svarta skýrslan um ástand fiskistofnanna kom út árið 1975.
Flotinn stækkar
Stuttu eftir að kvótakerfið komst á 1984 fór Guðmundur í land og hóf sinn feril sem útgerðarstjóri hjá Berg-Huginn.
„Mér fannst skrítið að fara í land. Það var svo lítið að gera í fyrstu og dálítið kjánalegt að fá kaup fyrir það. En svo bættust fleiri skip við. Bergur-Huginn keypti Smáey og henni fylgdi skipstjórakvóti. Svo bættist við Bergey og þá voru komnir þrír bátar í drift. Fljótlega eftir þetta var Bergur-Huginn fenginn til þess að gera út Halkion VE og Gideon VE sem voru í eigu Samtogs, sem á sínum tíma var eitt af stærstu og öflugustu útgerðarfélögum landsins. Flotinn varð því á skömmum tíma ansi öflugur og þá var ekki setið auðum höndum,“ segir Guðmundur.
Hann segir að hann hafi fengið titilinn útgerðarstjóri bara vegna þess að Magnús Kristinsson vildi það. Sjálfur hafi hann ekki verið að skipta sér af veiðunum sjálfum heldur hafi hlutverk sitt verið að halda skipunum gangandi. Magnús sá sjálfur um stýringu á veiðunum.
Seinna á níunda áratugnum bættust svo í flotann humarbáturinn Sæfaxi og Draupnir leysti hann svo af hólmi.
„Það var líka stöðugt verið að kaupa báta til þess að eignast veiðiheimildir, það var eina leiðin. Núna erum við bara með tvo báta til þess að veiða þetta allt saman. Samt er miklu meiri veiði núna en hefur verið nokkurn tíma áður. Það virðist bara vera meiri fiskur í sjónum og það gæti verið afrakstur af fiskveiðistjórnunarkerfinu. Svo eru bátarnir í dag miklu öflugri eins og Bergey og Vestmannaey eru gott dæmi um.“
Skipin voru tvö af sjö systurskipum sem Vard skipasmíðastöðin í Noregi smíðaði fyrir Berg-Huginn, Gjögur, Skinney-Þinganes og Samherja. Bergey og Vestmannaey hafa mokfiskað allt frá því útgerð þeirra hófst frá Vestmannaeyjum 2020.
„Þessir bátar eru smíðaðir inn í þriggja mílna landhelgina og henta okkur mjög vel. Við erum svo mikið á grunnsævinu og höfum mokfiskað á þá.“
Yfirdrifið nóg að gera
Guðmundur segir að í fyrsta og eina skiptið á hans ferli hjá Bergi-Hugin sem eitthvað alvarlegt hafi komið upp á í rekstri skipanna hafi verið þegar eldur kom upp í vélarrúmi Vestmannaeyjar í október í fyrra. Þetta gerðist þegar heimsfaraldurinn stóð sem hæst og þess vegna gekk hægt að fá varahluti í vélina frá Japan. Skipið var frá veiðum í fjóra mánuði. Á sama tíma mokaflaði systurskipið Bergey.
Nú sér fyrir endann á starfsferli Guðmundar hjá Berg-Huginn og hann hefur að mörgu öðru að snúa. Hann er mikill áhugamaður um flug og hefur haft einkaflugmannsréttindi frá árinu 1986. Auk þess hefur hann í gegnum tíðina tekið mikið af ljósmyndum og þykir ekki síður sleipur á því sviði.
„Ég er raunverulega hættur. Mér kveið mikið fyrir starfslokunum og ætlaði aldrei að trúa þessu. En svo meltir maður þetta og mér leiðist ekkert. Strandveiðarnar heilla mig ekki en það gerir flugið og ljósmyndunin. Ég hef smíðað tvö fis og svo höfum við verið með fjögurra sæta Piper vél saman ég og félagi minn. Auk þess er ég að smíða flugskýli ásamt fimm öðrum á Hólmsheiði. Ég hef yfirdrifið nóg að gera,“ segir Guðmundur og lítur bjartur fram á veginn.