Fiskakallinn er áhugamaður um veiðar, varðveislu og sölu á skrautfiskum og úrvalið í tæplega 300 fiskabúrunum í Súðar- og Kænuvogi er skrautlegt. Guðmundur J. Sigurgeirsson, Fiskakallinn, hefur ferðast víða um veröld til að fanga skrautfiska í kastnet eða háfa. Hann hefur líka veitt áður óþekktar tegundir og rekur verslun undir heitinu Fiskakallinn þar sem eru til sölu skrautfiskar af mörgum gerðum.
Guðmundur er múrari að atvinnu og hefur óbilandi áhuga á fiskum, lífríki þeirra og veiðum. Hann fór fyrst að veiða smáfiska árið 2013. Hann hefur þó aldrei verið til sjós enda bjó hann lengi á Hvolsvelli þar sem ekkert er útræðið. En sem gutti í barnaskóla fékk hann áhuga á smáfiskum og byrjaði þá með gúppí-fiska, sem eru með útbreiddustu hitabeltisfiskum heims og einir af vinsælustu gælufiskum heims.
Yfir 18 þúsund smáfiskar með tegundarheiti
„Það eru yfir 18 þúsund smáfiskar með tegundarheiti og það eru mun fleiri tegundir fiska í ferskvatni en sjónum. Með tíð og tíma þróast nýjar tegundir í litlum vötnum og lækjum þar sem þær lokast inni og hafa ekki samgang við aðrar tegundir. Kongó-áin í Afríku er til að mynda það straumhörð að fiskar sitt hvorum megin árinnar, í um kílómetra fjarlægð frá hver öðrum, hafa ekki komist yfir á hinn bakkann í árþúsundir. Þannig breytast þeir með tíð og tíma í sitt hvora tegundina,“ segir Guðmundur.
Guðmundur situr oft ráðstefnur sérfræðinga á þessu sviði og fer reglulega til annarra landa til veiða. Mest hefur hann sótt til Uruguay, þar sem hann hefur sex sinnum farið til veiða, en einnig til Norður-Ameríku í Everglades hitabeltisvotlendið í suðurhluta Flórída sem og til Taílands, Kamerún og Mið-Evrópu.
Vildi fisk í súpu
Mest veiðir Guðmundur í kastnet og með stórum háfum. Líka kemur fyrir að hann fari út með stærri net, þá í félagi við aðra, og eru netin þá dregin að landi með handaflinu. „Við vorum eitt sinn í Afríku að veiða 3ja cm smáfiska í net þegar kom kona aðvífandimeð pott og vildi fá fiskana sem við ætluðum að sleppa. Hún matreiddi þá síðan í súpu.“
Guðmundur hefur sótt ráðstefnur í Þýskalandi, Póllandi og víðar. Þar hittir hann gjarnan aðra með sömu áhugamál og oft eru sameiginlegar ferðir skipulagðar á þessum ráðstefnum. Hann er nýkominn úr sinni sjöttu ferð til Uruguay og var hann þá með Bandaríkjamanni sem hann hafði fimm sinnum áður farið í veiðitúra með. Samfélag er í kringum þetta áhugamál á samfélagsmiðlum og þar hefur hann líka kynnst Hollendingum sem hann hefur farið með til veiða í Afríku.
„Ég reyni helst að fara með minni hópum því þegar hóparnir eru stærri eru ferðirnar skipulagðari og mun kostnaðarsamari. En það þarf alltaf að hafa heimamann með í þessum leiðöngrum til að komast á réttu staðina og til þess að fylgja lögum og reglum í viðkomandi landi.“
Uruguay skemmtilegust
Guðmundur hefur rekið sig á veggi þegar hann hefur ætlað að koma heim með fenginn úr veiðiferðalögum sínum. Hann segir eftirlitsaðila á Íslandi alveg sér á báti meðal Evrópulalaust með fiska til sinna landa virðist stefnan hér frekar vera boð og bönn. Einnig sé líka passað upp á það að drekkja mönnum í beiðnum um vottorð af ýmsum toga og séu þau ekki rétt upp sett samkvæmt forskrift sé þeim hafnað.
„Uruguay er einkar skemmtilegur staður að heimsækja til að veiða fiska. Þarna eru miklar sléttur og því þægilegt að keyra að lækjum og ám. En í Brasilíu á Amasón-svæðinu er nauðsynlegt að vera á fljótabát og minni bát til þess að komast inn í ár og sprænur.“
Hefur fundið nýjar tegundir
Guðmundur hefur opið í Fiskakallinum á laugardögum og fimmtudagskvöldum og koma þá fjölmargir til að skoða og kaupa fiska. Hann segir það koma sér á óvart hve margir sýni þessu áhuga en þó sé það alveg skiljanlegt því þetta sé gefandi áhugamál. Með því að halda fiska þarf að huga að heilsu þeirra og búa til lítið lífríki fyrir þá í búrunum með tilheyrandi vatnagróðri og hringrás á vatni. Vatnagróðurinn í búrunum hjá Guðmundi er innfluttur frá Evrópu en kemur héðan og þaðan að úr heiminum. Hann heldur fisk í 330 búrum, 30-40 fiskar í hverju búri, svo alls telja fiskarnir vel á annan tug þúsunda. Sumar tegundirnar fjölga sér og ef þær éta ekki undan sér stækkar stofninn. Hann segir að stöðugt sé verið að finna nýjar tegundir og eru þær greindar með DNA-aðferðum.
„Ég hef fundið þrjár nýjar tegundir í Uruguay og þær eru í rannsókn núna í Bandaríkjunum til að greina af hvaða ætt þær eru og svo þarf að gefa þeim nafn. Við tökum sýni af uggum og sporðum sem þessar rannsóknir byggjast á. Partur af veiðinni er líka félagsskapurinn og að fá að mynda snáka, sporðdreka, krókódíla, blóðsugur og annað sem er í kringum okkur.“
Fengrani á stöng
Guðmundur segir að spennandi sé líka að stunda þetta áhugamál í Evrópu og nefnir þar sérstaklega Slóvakíu þar sem tæpar 90 tegundir eru þekktar af ferskvatnsfiskum. Þar er meðal annars að finna fengrana sem einnig hefur verið kallaður kattfiskur. Hann er stærsti vatnafiskur Evrópu og getur orðið allt að 4,5 metra langur og 300 kg að þyngd. „Ef ég fæ tækifæri til þess að fara í þessa stóru þá hafna ég því ekki. Það er virkilega gaman að kljást við þá með stönginni.“
Sem fyrr segir er opið hjá Fiskakallinum í Súðarvogi á laugardögum og fimmtudagskvöldum og það er alveg þess virði að gera sér ferð þangað og kynnast þessu sérstæða lífríki. Þeir sem eiga ekki heimangengt geta skoðað fallega fiska og kynnst þessum heimi á www.fiskakallinn.is.