Nýverið kom út hjá Sögur útgáfa bókin Fangar Breta eftir Sindra Freysson, þar sem raktar eru magnaðar sögur þeirra tæplega fimmtíu Íslendinga sem Bretar handtóku á stríðsárunum og settu í fangelsi í Bretlandi. Hér birtist einn kafli úr bókinni með góðfúslegu leyfi höfundar og útgefanda.
1.
Guðmundur Matthíasson Þórðarson var 36 ára gamall þegar hann var handtekinn. Hann var sonur Matthíasar Þórðarsonar, útgerðarmanns, rithöfundar og ritstjóra, og Sigríðar Guðmundsdóttur húsmóður. Matthías var frumkvöðull í útgerð frá Suðurnesjum og hafði talsverð umsvif þegar hæst bar, auk þess að vera fyrsti forseti Fiskifélags Íslands og stofnandi sjávarútvegstímaritsins Ægis. Eftir að hafa verið á faraldsfæti á milli Íslands, Englands og Danmerkur vegna starfa og viðskipta Matthíasar settist fjölskyldan loks að í Kaupmannahöfn árið 1922. Þess má geta til gamans að árið 1929 setti Matthías fram þá bjargföstu skoðun sína í ræðu og riti að „neysla fiskmetis væri orsök þess að hinn norræni kynstofn stæði framar öðrum kynflokkum hvað snertir líkamlegan og andlegan þroska“. Fiskneyslunni væri að þakka „líkamleg bygging, þróttur og þol hinna norðlægu þjóða og yfirburðir þeirra yfir hinar suðlægu þjóðir“.
Guðmundur var einn tólf systkina og notaði alla jafna eftirnafn föður síns sem ættarnafn og skráði sig þá sem Guðmund Matthíasson Thordarson. Einn af bræðrum hans var Sverrir Matthíasson, sem átti einnig eftir að sitja í fangelsum Breta.
2.
Guðmundur hafði fengist við sjómennsku þorra ævinnar, haldið ungur að árum í siglingar með danska skólaskipinu Georg Stage og allt frá þeim tíma siglt um heimsins höf. Hann hafði numið í stýrimannaskóla í Kaupmannahöfn í lok þriðja áratugarins og lauk þar skipstjóraprófi, enda staðráðinn í vinna sig upp í yfirmannsstöðu á skipi. Lengst af var hann stýrimaður á skipum danska skipafélagsins J. Lauritzen, sem enn er starfandi. Í stríðsbyrjun var Guðmundur fyrsti stýrimaður á skipinu e.s. Gunvor Maersk. Það var statt í enskri höfn þegar Þjóðverjar hernámu Danmörku í apríl 1940, og var Guðmundur upp frá því fjarri fjölskyldu sinni í Kaupmannahöfn. Hann sigldi áfram á e.s. Gunvor Maersk næstu mánuði, meðal annars til Noregs á meðan heimamenn þar og hersveitir Breta og Frakka reyndu árangurslaust að hrekja nasistana á brott, en skráði sig af skipinu þegar það kom til hafnar í Glasgow í júní 1940. Þegar í land var komið var hann handtekinn og settur í varðhald samkvæmt ákvæðum Aliens Registration Act. Lögin fjölluðu um skráningu útlendinga og höfðu fyrst verið sett við upphaf fyrri heimsstyrjaldar, til að gera breskum stjórnvöldum kleift á stríðstímum, eða við neyðarástand, að „setja hömlur á útlendinga og gera þær ráðstafanir sem þykja nauðsynlegar eða hagkvæmar til að hrinda slíkum takmörkunum í framkvæmd“.
Við upphaf síðari heims styrjaldar var í snatri gripið til þessara laga til að heimila fjöldahandtökur á erlendum ríkisborgurum í Englandi, mestan part Þjóðverjum og Austurríkismönnum, en síðar bættust Ítalir í hópinn. Breska leyniþjónustan hafði veður af Guðmundi skömmu eftir handtökuna og ákvað að setja hann í gæslu á grundvelli annarrar greinar í sömu lögum, sem tryggði í raun að hægt væri að halda honum innilokuðum um ótakmarkaðan tíma.
3.
Guðmundur skrifaði Pétri Benediktssyni, sendifulltrúa í London, bréf í júlí og skýrði honum frá högum sínum, en hann var þá innilokaður í Pentonville-fangelsinu í London. Pétur hélt í fyrstu að mál Guðmundar væri af sama toga og fjölda erlendra sjómanna, sem skráðir höfðu verið af skipum í breskum höfnum athugasemdalaust, en verið stungið beina leið í steininn þegar þeir stigu á land af því að þeir höfðu ekki leyfi til að vera í landinu! Sem var vissulega þversagnarkennt, en Bretar nýttu og áttu eftir að nýta þessa heimild í lögunum margoft.
Þar á meðal í ýmsum tilfellum íslenskra fanga sem komu til Bretlands – eðli málsins samkvæmt – nauðugir, og verður slík notkun laganna að kallast einstaklega hugmyndarík – eða þó kannski frekar ósvífin – leið til að sveigja lögin að þörfum stjórnvalda í viðkomandi tilvikum. Flestir þeir sjómenn sem Bretar handtóku við landgöngu fengu þó frelsi sitt eftir stutta fangavist, og því reiknaði Pétur með að sama væri upp á teningnum með mál Guðmundar. En Pétur uppgötvaði brátt að málið væri alls ekki einfalt viðureignar: „Ég gerði upphaflega ráð fyrir að tiltölulega auðvelt myndi að fá Guðmund lausan, gegn skuldbindingu frá mér um að senda hann heim til Íslands. Þetta hefur reynst á annan veg. Ég hef átt í löngum bréfaskriftum við breska innanríkisráðuneytið um málið, og varla hefur liðið sú vika að ég bæði þá ekki að hraða aðgerðum.“
Framhald síðar í dag.