Færeyingar hafa tímabundið misst MSC-vottun þorskveiða vegna þess að hrygningarstofn þorsks við Færeyjar er kominn niður fyrir viðmiðunarmörk.

Þorskstofninn við Færeyjar hefur ekki verið í sem bestu ásigkomulagi undanfarin misseri. Í lok nóvember 2021 gaf Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) í samvinnu við færeysku Havstofuna útráðgjöf fyrir árið 2022 og var ekki talið ráðlegt að veiða meira en 2.206 tonn á árinu 2022. Þetta var samdráttur upp á heil 65% frá ráðgjöf ársins 2021. Þar á ofan þurftu Færeyingar að draga úr ýsuveiði um 24% milli ára en á móti þótti óhætt að auka ufsaveiði um 37% á árinu 2022.

Nú síðast tilkynnti félagið Faroe Islands Sustainable Fisheries (FISF) að MSC-vottun þorskveiða falli tímabundið niður frá og með 14. september, en FISF er samstarfsverkefni færeyskra útgerðarfyrirtækja og hafrannsóknafólks um vottun sjálfbærra veiða við Færeyjar. Færeyingar geta því ekki selt þorsk sem veiddur er eftir þann tíma undir merkjum MSC-vottunar um sjálfbærar veiðar.

Bpa og Blim

„Ástæðan er í rauninni sú að fyrir fiskstofna eru settir viðmiðunarpunktar, Bpa eða Blim, og maður vill hafa stofninn fyrir ofan Bpa,“ segir Gísli Gíslason, svæðisstjóri MSC í Norðuraustur-Atlantshafi. Hann grípur þarna til tæknihugtaka sem ekki eru öllum töm.

Á vef Hafrannsóknastofnunar má finna Inngang að ráðgjöf, þar sem gerð er grein fyrir aðferðum sem notaðar eru við stofnmat og ráðgjöf fyrir flesta helstu nytjastofna við Ísland. Þar segir að Blim séu svonefnd varúðarmörk stofnstærðar, sem þýðir að ef stofnstærðin fer undir þessi mörk þá er talið að afrakstursgeta hans minnki. Bpa eru hins vegar svonefnd gátmörk hrygningarstofns, og er talið að líkur á skertri nýliðun aukist um of ef hrygningarstofninn fer undir þessi mörk.

Gísli Gíslason, svæðisstjóri MSC. MYND/Eva Björk
Gísli Gíslason, svæðisstjóri MSC. MYND/Eva Björk
© Eva Björk Ægisdóttir (Eva Björk )

„Þegar þetta var vottað í fyrra,“ heldur Gísli áfram, „þá mældu fiskifræðingar stofninn yfir Bpa. En svo gerist það í síðustu úttekt að stofninn er mældur undir Blim.“

Hann er sem sagt kominn undir varúðarmörk og það þýðir bara eitt þegar kemur að vottun samkvæmt MSC-staðli: „Það er bara fall,“ segir Gísli.

Hrósar Færeyingum

„Ef hann er milli Bpa og Blim þá er ekkert endilega víst að stofninn fari út, það er hægt að búa til áætlun um að endurreisa stofninn, en þegar hann mælist undir Blim þá er hann ekki vottunarhæfur vegna þess að þá er ekki mælt með neinum veiðum nánast.“

Hann segir samt fulla ástæðu til að hrósa Færeyingum fyrir það hve vel þeir hafa staðið að málum í sambandi við vottun veiðanna.

„Maður finnur til með frændum vorum í Færeyjum út af þessu. Þeir eru virkilega búnir að leggja sig fram og það er mikill áhugi hjá þeim að nota kerfið til að geta kynnt sig sem sjálfbær fiskveiðiþjóð.“