„Það hefur enginn kraftur verið í veiðunum. Þetta hefur bara verið svona hark,“ segir Bergur Einarsson, skipstjóri á Venusi NS, um veiðar á Íslandssíld að undanförnu. Þegar rætt er við Berg er á Venus á siglingu á Húnaflóa frá miðunum sem eru um 120 mílur vestur af Garðskaga. Stefna var sett austur í heimahöfn á Vopnafirði.

Segist Bergur hafa viljað vera búinn að sjá meira af síld.

„Að vísu þegar við vorum að hætta í gær [á mánudag] þá sá ég fyrst almennilegar torfur og skipin sem voru á landleið hittu á torfur nær landi líka. Það var að vísu smærri síld, en það var einhver veiði hjá þeim,“ segir skipstjórinn sem lýsir tíðinni að undanförnu einfaldlega sem ógeðslegri.

„Það er aldrei friður nema í sólarhring eða svo og þá eru komnir stórir stormar aftur. Það er bara búið að vera afar erfitt að eiga við þetta veðurfarslega séð,“ segir Bergur.

Alltaf á núllpunkti

Bergur Einarsson, skipstjóri á Venusi NS. Mynd/Aðsend
Bergur Einarsson, skipstjóri á Venusi NS. Mynd/Aðsend

Gert var ráð fyrir að Venus yrði komin til löndunar á Vopnafirði á nú í morgun með aflann sem Bergur segir hafa verið um 920 tonn. „Þetta verður bæði heilfryst og fryst í flapsa,“ segir hann. Síldin sé ágæt þótt hún sé náttúrlega smærri en norsk-íslenska síldin. „Þetta er svona 290 til 300 gramma síld sem við erum með. Það er fínasta Íslandssíld.“

Um var að ræða annan síldartúr Venusar að þessu sinni. Aflinn var 1.060 í fyrri túrnum.

„Það er alltaf erfitt að átta sig á þessu þegar er svona ótíð inn á milli. Þá byrja menn alltaf á núllpunkti. Það er langt að fara og þar af leiðandi eru svona veðurfarslegar tafir mjög erfiðar,“ segir Bergur og bendir á að fyrir Venus séu miðin algerlega hinu megin á landinu og um 450 mílur að fara.

Gott á kolmunnanum

„Þetta má ekki verða mjög gamalt og þess vegna getur maður svo lítið beðið á milli. Maður verður bara að fara þegar brælir,“ segir Bergur. Aðstæðurnar setji þannig þröngar skorður. „Það er svo vont að fá bara einhvern slatta. Eins og núna þá verður ekki veður fyrr en á fimmtudagskvöld og það var ekkert hægt að bíða eftir því.“

Varðandi það hvað sé framundan segir Bergur það óráðið. „Annað hvort verður það kolmunni eða síld áfram. Ég heft trú á að það verði kolmunni,“ segir hann. Þá verði haldið í færeysku lögsöguna. „Þar hefur verið bara fínasta veiði síðustu vikuna.“