Landssamband smábátaeigenda lýsir yfir vonbrigðum með að skoðanir þjóðarinnar og stuðningur við strandveiðar hafi verið virtar að vettugi í niðurstöðum starfshópa verkefnisins Auðlindin okkar. Þar er vísað til skoðana þjóðarinnar um strandveiðar sem birtustu í rannsóknarskýrslu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands þar sem 72,3% svarenda vildu að hlutfall strandveiða af heildarafla ætti að vera hærra. Hagræni hópur „Auðlindarinnar okkar“ hafi hins vegar ákveðið að leggja ekki til breytingar á strandveiðum, að strandveiðikerfið sé ýmsum annmörkum háð þrátt fyrir stuðning í samfélaginu.
„Miðað við orð ráðherra eru það því Landssambandi smábátaeigenda mikil vonbrigði að skoðanir þjóðarinnar um strandveiðar sem birtust í rannsóknarskýrslu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands skuli hafa verið virtar að vettugi. Skýrslan var unnin fyrir Matvælaráðuneytið í mars sl. og var markmið hennar að kanna viðhorf fólks til ýmissa atriða sem tengdust málefnum sjávarútvegsins. Spurning sem laut að strandveiðum var: Telur þú að hlutfall strandveiða af heildakvóta eigi að vera hærra, lægra eða svipað og það er nú. 31,1,% svarenda sögðu að hlutfallið ætti að vera mun hærra og 41,2% nokkru hærra. Niðurstaða til sátta var því skýr, 72,3% svarenda vildu að hlutfall strandveiða af heildarafla ætti að vera hærra. LS bindur vonir við að við gerð frumvarps um heildalög sjávarútvegsins sem nú er í smíðum að ráðherra taki tillit til sjónarmiða þjóðarinnar og stigi þar með mikilvægt skref til aukinnar sáttar um sjávarútveginn.“