Skip frá Síldarvinnslunni, Eskju og Brim voru við kolmunnaveiðar austur af landinu í byrjun vikunnar en framan af gátu menn lítið beitt sér vegna óveðurs. Ágæt kolmunnaveiði var fyrr í mánuðinum en heldur hefur dregið úr henni þessa dagana.
Nokkur uppsjávarfyrirtækjanna höfðu klárað síldarkvótana en Síldarvinnslan á enn eitthvað eftir af sínum kvóta. Staðan er líka sú að allar frystigeymslur eru yfirfullar þótt ekki sé um birgðasöfnun að ræða. Það er sem sagt ekki sölutregða sem er að hrjá markaðinn því afurðirnar seljast hratt en það reynir á innviðina jafnt í Neskaupstað, Hafnarfirði og Reykjavík og annars staðar í Evrópu.
„Frystigeymslur úti í Evrópu eru líka fullar og allt tengist þetta stríðinu. Það hefur hægt á öllu og það tekur lengri tíma að koma hlutunum frá sér,“ segir Grétar Örn Sigfinnsson, rekstrarstjóri útgerðar hjá Síldarvinnslunni.
Heimir Ásgeirsson, verkstjóri í frystigeymslum Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, sagði frá því nýlega að frosnar afurðir hrannist upp í frystigeymslum fyrirtækisins og var svo komið að þær voru nánast fullar, en þær rúma 18.000 tonn. Sífellt fari afurðir í gáma og er skipað út á Reyðarfirði en nauðsynlegt sé á vertíðum sem þessari að frystiskip komi og lesti mikið magn. Koma slíkra skipa frestaðist og því hlóðust birgðir upp í geymslunum. Nú eru skipin hins vegar farin að koma og eru nánast samfelldar útskipanir í Norðfjarðarhöfn um þessar mundir.
Nudd en ekki mok
Barði NK var á vestanvert í Þórsbanka suðvestur af landinu ásamt fimm öðrum uppsjávarskipum og var kominn með rúm 1.150 tonn af kolmunna. Þetta var þriðji kolmunnatúr Barða en ekki hefur enn tekist að fylla skipið og þá aðallega vegna óhagstæðs veðurs. Í fyrri tveimur túrunum af aflinn 770 tonn og 1.660 tonn.
„Það hefur ekki verið neitt mok en dálítið nudd. Veðrið er gengið niður og það er bara blíða hérna,“ segir Þorkell Pétursson skipstjóri. Barði tekur 2.500 tonn ef hann er fylltur alveg upp að mörkum en Þorkell segir að aldrei sé svo mikið tekið. Hann segir þetta góðan kolmunna og afbragðs gott hráefni fyrir bræðsluna.
Vonandi hér til vetursetu
„Kosturinn við þetta er að það er ekki langt að sækja kolmunnann núna. Við erum komnir á miðin eftir fimm til sex tíma. Við byrjuðum 5. október í fyrr og vorum þá á sömu slóðum. Vonandi er þetta ávísun á það að kolmunninn sé að ganga meira inn í lögsöguna og til þess að vera hérna. Fyrir mörgum árum fiskuðum við kolmunna hérna í Rósagarðinum og utan í Þórsbankanum þannig að vonandi er kolmunninn að taka upp á því að hafa vetursetu hérna,“ segir Þorkell.