Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segir að ákvæði um eignatengsl í sjávarútvegi í frumvarpi ríkisstjórnarinnar nái eingöngu til Samherja.

„ Verði frumvarpið að lögum óbreytt mun 30,06% af aflahlutdeild Síldarvinnslunnar hf. leggjast ofan á aflahlutdeild Samherja Íslands ehf., dótturfélags Samherja hf. Þetta bindur hendur Samherja varðandi fjárfestingar í framtíðinni og gæti leitt til þess að félagið fari yfir lögbundna 12% hámarksaflahlutdeild (kvótaþak) sem kveðið er á um í 13. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða. Ef slíkar aðstæður skapast myndi Samherji þurfa að selja hlutabréf í Síldarvinnslunni hf. til að komast undir 20% eignarhlut í félaginu eða selja frá sér skip með aflaheimildum, eða gera aðrar ráðstafanir um tilfærslu þeirra, til að fara aftur undir þak,“ segir í umsögn sem Þorsteinn Már hefur sent Alþingi fyrir hönd Samherja.

Í raun um að ræða eignarnám

Þá segir Þorsteinn að í réttarframkvæmd hafi verið litið svo á að ef eignarréttarskerðing sem leiði af lögum bitni hart á einum aðila kunni að vera litið svo á að þar sé í reynd um að ræða eignarnám í skilningi 72. gr. stjórnarskrár. „Í frumvarpinu er engin athugun gerð á þessu atriði fremur en öðrum veigamiklum atriðum, svo sem áður greinir,“ bendir forstjórinn á. Vandséð sé hvaða tilgangi þetta lagaákvæði þjóni eða að hvaða markmiði sé stefnt með því.

„Svo virðist sem eini tilgangurinn með ákvæðinu sé að leggja stein í götu Samherja hf. Hér ætlar löggjafinn að horfa alfarið framhjá þeim jákvæðu áhrifum sem hlutafjáreign Samherja í Síldarvinnslunni hefur haft fyrir samfélagið í Fjarðabyggð, íslenskan sjávarútveg og íslenskt samfélag almennt en í því sambandi ber að vísa til fjölda vel borgandi starfa, fjárfestingar, verðmætasköpunar í greininni og fjölmargra afleiddra áhrifa í íslensku efnahagslífi,“ segir í umsögn Þorsteins Más.

Fjárfest fyrir áttatíu milljarða á áratug

Áfram segir að Samherji hafi verið hluthafi í Síldarvinnslunni í aldarfjórðung og að Þorsteinn Már hafi fyrst sest í stjórn Síldarvinnslunnar á árinu 2001 og hafi verið stjórnarformaður fyrirtækisins frá 2003.

„Á þessum tíma hefur Síldarvinnslan vaxið og dafnað, fjárfest fyrir tugi milljarða króna, skapað fjölda vel launaðra starfa í Fjarðabyggð og rutt brautina fyrir önnur sjávarútvegsfyrirtæki á landsbyggðinni með skráningu á almennan hlutabréfamarkað í Kauphöll Íslands vorið 2021. Á undanförnum tíu árum, á tímabilinu 2014-2024, fjárfesti Síldarvinnslan hf. fyrir áttatíu milljarða króna í íslenskum sjávarútvegi og 99,75% af fjárhæðinni fór í endurnýjun skipa, byggingar á nýjum verksmiðjum, endurnýjun tækja og búnaðar fyrir veiðar og vinnslu og fjárfestingu í eldi, sbr. neðangreinda skýringarmynd. Aðeins tvö hundruð milljónir króna af þessum áttatíu milljörðum fóru ekki í beinar fjárfestingar á sviði sjávarútvegs en fóru engu að síður til nærsamfélagsins í Neskaupstað. Allan þennan tíma var Samherji kjölfestufjárfestir í Síldarvinnslunni og studdi dyggilega við fyrirtækið og samfélagið í Fjarðabyggð og var aðeins með einn stjórnarmann í félaginu, líkt og nú. Hér skal jafnframt bent á að Samherji minnkaði eignarhlut sinn úr 44,64% í 30,06% í kjölfar skráningar Síldarvinnslunnar á hlutabréfamarkað,“ segir Þorsteinn Már.

Ekki verið að gæta að hagsmunum íbúa Fjarðabyggðar

Að sögn Þorsteins felur frumvarpið í sér að þau skilaboð að það sem hann rekur hér að framan sé ekki í lagi. „Það sé slæmt að eitt sjávarútvegsfyrirtæki með aflaheimildir eigi meira en 20% eignarhlut í öðru fyrirtæki sem einnig eigi aflaheimildir. Almannahagsmunir réttlæti þetta en þó er ekki útskýrt hvaða almannahagsmunir það eru. Það eru væntanlega ekki hagsmunir íbúa Fjarðabyggðar og nærsveita sem hafa notið góðs af uppbyggingu Síldarvinnslunnar undanfarin 25 ár,“ skrifar hann.

Í umsögn sinni rekur Þorsteinn Már að ákvæðið í frumvarpinu um eignatengsl geti leitt til þess að þekking glatist út úr sjávarútvegi. Útvíkkun á því hverjir teljist tengdir aðilar sé íþyngjandi fram úr hófi og tilefnislaus með öllu.

Sérþekking haldist innan sömu fjölskyldna

„Íslenskur sjávarútvegur hefur að miklu leyti byggst upp af fjölskyldum sem rekið sjávarútvegsfyrirtækin kynslóð fram af kynslóð. Hjá þessum fyrirtækjum hefur orðið til mikil sérþekking og reynsla sem hefur haldist innan sömu fjölskyldna. Verði frumvarpið að lögum í þessari mynd kann þetta ákvæði að leiða til þess að einstaklingar úr fjölskyldum sem eiga sjávarútvegsfyrirtæki muni síður taka þátt í uppbyggingu annarra fyrirtækja í greininni. Má hæglega ímynda sér í kjölfarið að tvö alveg ótengd sjávarútvegsfyrirtæki verði talin tengdir aðilar þar sem systkini séu þar við stjórnvölinn eða hluthafar,“ segir forstjóri Samherja sem fjallar ítarlegar um frumvarpið í umsögn sinni og áskilur sér rétt til að koma að fleiri athugasemdum síðar.

Vankantar á framkvæmd laga um hámarksaflahlutdeild

Frumvarp atvinnuvegaráðherra lýtur að breytingum á lögum um stjórn fiskveiða sem snerta skilgreiningu tengdra aðila, eftirlitsúrræði Fiskistofu vegna ákvæða um hámarksaflahlutdeild og aukið gagnsæi og upplýsingagjöf um eignarhald útgerða og tengsl á milli þeirra.

Í frumvarpinu er einnig lögð til ný ákvæði um upplýsingagjöf um viðskipti með aflahlutdeildir, þar með talið verð í slíkum viðskiptum, auk þess sem Fiskistofu verði skylt að birta upplýsingar um framangreind atriði upp að ákveðnu marki.

Markmið breytinganna samkvæmt skýringum með frumvarpinu er að stuðla að auknu gagnsæi í sjávarútvegi, svo og bæta úr vanköntum á framkvæmd ákvæða gildandi laga um hámarksaflahlutdeild.