Eldgos hófst ofan við varnargarðana við Grindavík um klukkan 9.45 í gær. Skömmu síðar hafði gosið náð inn fyrir garðana með tilheyrandi óvissu fyrir byggðina.

Jón Steinar Sæmundsson, verkstjóri í salthúsi Vísis, var einn þar á staðnum að undirbúa komandi vinnudag þegar boð kom um rýmingu.
Þegar Fiskifréttir slá á þráðinn til Jóns Steinars upp laust upp úr klukkan hálftíu er hann snúinn aftur að bæjarmörkunum.
„Við byrjum klukkan átta og ég var bara í undirbúningi þegar ég fékk sms klukkan ellefu mínútur í sjö,“ segir Jón Steinar. Vinnan var því ekki hafin og þar af leiðandi þurfti ekki að hlaupa frá höfnu verki.
Um 350 kör óunnin
„Það var engin annar mættur á svæðið,“ segir Jón Steinar sem kveðst ekkert hafa fundið fyrir skjálftum í aðdraganda kvikuhlaupsins og síðar gossins.
Vestmannaeyjatogararnir Bergur VE og Vestmannaey VE höfðu landað fullfermi í Grindavík á laugardaginn og er enn verið að vinna úr þeim afla að sögn Jóns Steinars. Auk þess segir hann að landað hafi verið úr Páli Jónssyni GK á mánudaginn. Það sé því töluvert af hráefni á lager.
„Ætli við séum ekki með um 350 kör sem við eigum eftir að vinna og svo pakkaðar afurðir,“ segir verkstjórinn. Í salthúsið hafi um tvö hundruð kör komið úr Vestmannaeyjatogurunum tveimur og um 300 kör úr Páli. Hluti af því hafi þegar verið unninn. Úr þessum togurum hafi einnig farið afli til vinnslu í frystihúsi Vísis.
Góð tímasetning ef hægt er að tala um það
„Við erum búin að haga okkar vinnu eins og allt sé normal og höfum unnið á fullum afköstum,“ segir Jón Steinar sem aðspurður kveður hráefnið þola nokkurra daga bið. „Við vinnum alltaf elsta fiskinn fyrst.“
Þegar samtalið við Jón Steinar hefst eru enn um sjö mínútur í að eldgos hefjist skammt ofan við Grindavík og hann gerir sér vonir að möguleg eldsumbrot setji ekki meira strik í reikninginn en svo að hægt verði að byrja vinnsluna aftur strax daginn eftir, sem sagt í dag, miðvikudag.
„Ég gekk bara frá í salnum og slökkti á þeim vélum sem voru í gangi og þurfti að slökkva á og fór svo rólega út,“ segir verkstjórinn og tekur undir að heppilegt hafi verið að ekki var lengra liðið á daginn og allt starfsfólkið mætt til vinnu. „Ef það er hægt að tala um góðan tíma þá var þetta góður tími. Maður þakkar fyrir það.“
Það er að koma upp gos hérna

Þótt Jón Steinar hafi yfirgefið Grindavík eftir að tilkynnt var um rýminguna sneri hann til baka og var við bæinn er gosið hófst. „Ég sit hérna rétt í bæjarjaðrinum,“ upplýsir hann og er strax spurður hvort hann sé ekki með myndavélina meðferðis því hann er þekktur og afkastamikill ljósmyndari sem tekið hefur fjölda mynda fyrir Fiskifréttir.
„Ég hef alltaf myndavélina og drónann með til að mynda báta og ef eitthvað svona gerist,“ svarar Jón Steinar og er þá strax beðinn að taka mynd yfir bæinn. „Heyrðu, það er að koma upp gos hérna,“ segir hann þá og við slítum samtalinu í bili.
„Maður var alltaf að vonast eftir betri staðsetningu. Maður er eiginlega í hálfgerðu sjokki,“ segir Jón Steinar þegar við tökum þráðinn upp að nýju þegar klukkan er orðin rúmlega ellefu og hann búinn að mynda og kominn heim til sín í Innri-Njarðvík.
Háalvarlegt og allt í uppnámi
„Núna er maður uggandi. Ég þekki svo vel landslagið þarna og þetta er eiginlega allra versti staðurinn sem þetta gat komið upp. Hvað þetta verður lengi veit maður ekki. Best væri ef þetta myndi opnast eitthvað norðar eins og maður var að vona,“ segir Jón Steinar sem til þessa hefur ekki séð eldgos í fæðingu nema í vefmyndavélum.
„Núna sá maður með berum augum reykinn byrja og svo komu glæringarnar. Þetta er alveg magnað að sjá en er háalvarlegt og setur allt í uppnám. Nú verður maður bara að bíða og sjá. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að Grindavík skemmist eitthvað.“