Heimastjórn Tálknafjarðar segir að sem fyrst þurfi að gera ýmsar betrumbætur á Tálknafjarðarhöfn.

„Núverandi ástand við olíudælur á vestari enda hafskipabryggju er ekki gott og töluverð slysahætta þegar minni bátar eru að taka þar olíu. Klifra þarf upp á bryggjuna til að setja dælu af stað, klifra niður í bátinn til að fylgjast með dælingunni og upp aftur til að slökkva á dælingu. Bæði er bryggjuþilið hátt nema rétt þegar um hæstu flæðar auk þess sem þarna er ekki alltaf gott skjól fyrir vindi og báru auk hæðar þilsins,“ segir í ábendingu heimastjórnarinnar til sveitarstjórnar Vesturbyggðar.

Endurbæta þurfi olíuaðstöðu

Þá leggur heimastjórnin til að hafin verði vinna við að endurbæta olíuaðstöðu í Tálknafjarðarhöfn með betra aðgengi, sérstaklega fyrir minni báta. Mögulega lausn sé að setja flotbryggju við norðurhlið/innri hlið bryggjunnar þar sem sett væri upp olíudæla. „Þannig myndaðist skjól fyrir báta, minni bátar ættu auðvelt með að athafna sig og stærri bátar kæmust auðveldlega að við enda flotbryggjunnar.“

Hætta vegna útrennslis á burði

Einnig segir heimastjórnin nauðsynlegt að hefja vinnu við undirbúning og hönnun á stálþili sem mögulegt sé að reka niður á norður/innri hlið bryggjunnar sem snúi inn í smábátahöfnina.

„Með slíku þili eykst öruggt legupláss fyrir meðalstóra báta, svo sem þjónustubáta, í Tálknafjarðarhöfn. Jafnframt er minnt á ástandsskoðun á þili hafskipabryggjunnar sem unnið var 2017 þar sem fram kemur að ástand þilsins orðið mjög slæmt og hætta getur skapast á þekjunni á bryggjunni vegna úrrennslis á burði í bryggjunni,“ segir heimastjórn Tálknafjarðar.