PC Dash, einkaleyfishafi Domino‘s Pizza í Kína, hyggst stórauka starfsemi keðjunnar á asískum markaði. Hluti af planinu er nýr matseðill sem tekur mið af bragðlaukum þarlendra, þar á meðal úrval sjávarréttarflatbaka sem eiga að styðja við áformin.
DPC Dash opnaði 14 nýja Domino‘s staði í 13 borgum í Kína á síðasta ári, þar á meðal í Chongqing og Shenyang.
Qian Sijia, talsmaður PC Dash, sagði í samtali við SeafoodSource, að nýr matseðill fyrir Kína innhéldi meðal annars flatböku með sæeyrum og ál, flatböku með sæbjúgum, sæeyrum og strandrækjum og flatböku með krossfiski ásamt kjúklingaflatböku sem ætti að tryggja að viðskiptavinir fengju „gómsætar flatbökur á góðu verði“.
Annað á matseðlinum er m.a. flatbaka með nautakjöti, sjávarréttum, flatbaka með lárperu, strandrækjum og beikoni, flatbaka með ál í japanskri útfærslu og flatbaka með ananas og djúprækju.
DPC Dash útibúin bjóða einnig upp á djúprækjuböku, smokkfiskböku, risarækju og hveitilengjusalat með hörpuskelfisk og smokkfiskhrognum.
DPC Dash rekur nú yfir 1.000 Domino‘s flatbökustaði í 46 kínverskum borgum, eða tífalt fleiri en voru í árslok 2017. Fyrirtækið ráðgerir að opna 300 nýja staði á þessu ári og 350 aftur á næsta ári.