Heimsfrumsýning nýjustu heimildarmyndar David Attenborough, Ocean, verður á morgun, 8. maí. Þann dag fagnar náttúrufræðingurinn einmitt 99 ára afmæli sínu. Í Hafið með David Attenborough beinir þessi vinsæli og háaldraði sjónvarpsmaður og náttúrufræðingur sjónum að botnfiskveiðum og afleiðingum þeirra fyrir vistkerfi hafsins. Einum degi eftir heimsfrumsýningu myndarinnar verður hún frumsýnd á Íslandi í Smárabíó að viðstöddum leikstjóra og framleiðanda hennar, Toby Nowlan.
Fjallað var um myndina í breska stórblaðinu Guardian fyrir skemmstu.
Í grein Guardian, sem er skrifuð af blaðamanninum Karen McVeigh, segir að heimildarmynd Attenborough Bláa plánetan II, sem frumsýnd var fyrir átta árum, hafi valdið kaflaskilum með tilheyrandi viðhorfsbreytingum í notkun og förgun á plasti. Framleiðendur heimildarmyndarinnar Hafið með David Attenborough vonast til þess að hún verði jafn áhrifamikil gagnvart skoðunum almennings á umhverfisspjöllum í hafinu af völdum veiða með botnvörpum sem Attenborough segir sjálfur að séu að murka lífið úr höfunum.
Afleiðingar sýnilegar úr geimnum?
Stór hluti heimildarmyndarinnar snýst einmitt um botnvörpuveiðar verksmiðjutogara. Attenborough, sem er sennilega áhrifamesti náttúrufræðingur og þáttagerðarmaður heims, heldur því fram fullum fetum að gríðarlega öflugir togarar rífi í sundur hafsbotninn með slíku afli að „slóðir eyðileggingarinnar eru sýnilegar úr geimnum.“ Hann fordæmir líka það sem hann kallar „nútíma nýlendustefnu til sjávar“, þar sem risastórir togarar veiði úti fyrir ströndum landa og eigi sök á minnkandi afla þjóða sem treysta á fisk sér til lífsviðurværis.
Hann segir að verksmiðjuveiðar (e. industrial fishing) hafi sálgað „tveimur þriðju hlutum allra stórra ránfiska“. Við Suðurskautslandið gætu togarar verið að „eyða grundvelli heils vistkerfis“.
Hákarlar og skjaldbökur sem lifðu af útrýmingu risaeðlanna lifi ekki af veiðar þúsunda iðnaðartogara sem keppi um lífsviðurværið við sjávarlíf og strandveiðisamfélög.

Í baráttu sinni gegn þessum veiðiaðferðum hefur Attenborough gengið mun lengra en hann hefur áður gert, segir Keith Scholey, einn af leikstjórum Ocean, og stofnendum Silverback Films, sem hefur starfað með Attenborough í meira en 40 ár.
„Hann veit hversu mikið almenningur treystir honum og hversu varkár hann þarf að vera. Hann vill koma þessari breytingu á. Hann er sannfærður um að nú standi heimurinn frammi fyrir tækifæri til að bregðast við.“
Regnskógar og sjávarbotn
Í grein Guardian segir að dramatískasta atriði myndarinnar innihaldi sem sýna botnvörpuveiðar, meðal annars á hörpuskel út af suðurströnd Bretlands og Tyrklandi. „Ský af kolefnisfangandi seti þyrlast upp og fiskar og annað sjávarlíf reynir að forða sér undan þungum veiðarfærum sem brjóta sér leið yfir hafsbotninn og eyðileggja allt sem á vegi þeirra verður.“
„Hugmyndin um að jarðýtur ryðji regnskóga vekur upp reiði en samt gerum við það sama neðansjávar á hverjum degi,“ segir Attenborough. „Það myndu örugglega flestir halda því fram að það hljóti að vera ólöglegt.“
Attenborough hefur áður sætt nokkurri gagnrýni fyrir að hafa ekki gengið nógu langt með skilaboð sín um loftslagskreppuna. Svar hans hefur verið á þá leið að endurteknar viðvaranir um eyðileggingu manna á náttúrunni geti virkað öfugt á áhorfendur. Hlutverk hans hafi ekki verið að leiða herferðir heldur að segja grípandi og sannar sögur af dýralífi og umhverfi.
Hafið með David Attenborough tók tvö ár í framleiðslu. Í henni segir Attenborough áhorfendum að höfin, sem umlyki meira en 70% jarðar, eigi vera mannkyninu efst í huga. „Ég skil það núna að mikilvægasti hluti jarðarinnar er ekki á landi heldur sjó,“ segir hann.
Í lok frumsýningarinnar á Íslandi mun Toby Nowlan leikstjóri taka þátt í umræðum um myndina. Icelandic Wildlife Fund er meðal bakhjarla frumsýningar á þessum síðasta stóra ópus David Attenborough, ásamt Landvernd, Náttúruverndarsamtökum Íslands og Verndarsjóði villtra laxastofna.