Athyglisverða samantekt er að finna á aflafrettir.is um afla uppsjávarskipa við Ísland og Færeyjar á þessu ári. Þar kemur fram að heildarafli síldar, kolmunna og makríls er kominn í tæp 930 þúsund tonn á árinu og færeysk skip raða sér í fjögur efstu sætin.

Christian í Grjótinum trónir hæst á lista Aflafrétta með rúm 54 þúsund tonn í 27 löndunum, þar af 50.700 tonn af kolmunna. Í 5. sæti á listanum er Börkur NK með heildarafla upp á 44.700 tonn, þar af 36.600 tonn af kolmunna. Þá kemur Beitir NK með tæp 40 þúsund tonn, Vilhelm Þorsteinsson EA með 36.600 tonn, Venus NS með 33.725 tonn og Aðalsteinn Jónsson SU með 32.400 tonn. Listinn er aðgengilegur á vefnum www.aflafrettir.is.