Lilja Björg Arngrímsdóttir, starfsmannastjóri Vinnslustöðvarinnar, segir fyrirtækið grípa til þessa ráðs vegna skorts á starfsmönnum með réttindi sem vélstjórar, vélaverðir og skipstjórnendur.

Fyrirtækið býðst til að veita 300.000 króna námstyrk fyrir hverja önn og tryggja umsækjendum störf hjá fyrirtækinu gegn því að þeir starfi hjá því í að minnsta kosti þrjú ár að námi loknu.

Þannig getur námstyrkurinn orðið allt að þrjár milljónir króna sé miðað við fimm ára og tíu anna nám eins og gildir til að mynda um vélstjórnarnámið. Vinnslustöðin hefur ekki áður auglýst með þessum hætti eftir nemum en fyrirtækið hefur áður veitt nemum námsstyrki.

„Sú staða kom upp fyrir 10 til 15 árum að við áttum erfitt með að ráða réttindamenn á skipin okkar og þessi staða er komin upp á ný. Almennt má segja að það sé erfitt að manna skipin um þessar mundir. Menn standa ekki á bryggjunni eins og áður fyrr og bíða eftir plássi. Það sem gæti skýrt þetta er að meðal annars það að nægt framboð er af vinnu í landi,“ segir Lilja Björg.

Hún segir viðbrögðin hafa komið sér talsvert á óvart því námstyrkirnir voru ekki auglýstir annars staðar en á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar og á samfélagsmiðlum. Það skilaði fjölda fyrirspurna í formi símtala og tölvupósta og hafa þrettán manns sótt um stuðninginn. Miklu fleiri höfðu samt samband og vonast Lilja Björg að umsækjendur verði fleiri þegar upp er staðið.

Tryggja vinnu á sumrin

„Það stendur aðeins í sumum að þurfa að binda sig í vinnu hjá okkur að námi loknu í þrjú ár. Okkur þykir það samt eðlileg krafa þegar við höfum styrkt nema í námi í allt að fimm ár. Við tryggjum líka þeim sem vilja vinna meðfram náminu starf og við sýnum sveigjanleika hvað varðar námsframvinduna þegar þannig stendur á. Við tryggjum viðkomandi einnig vinnu yfir sumarið á sjó eða við það sem hann er að mennta sig til. Og að loknu námi tryggjum við umsækjendum einnig vinnu að loknu námi.“

Vinnslustöðin er eitt öflugasta útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki landsins og gerir út þrjú togskip, einn netabát og þrjú uppsjávarskip. Atvinnumöguleikar að loknu námi eru því nokkuð fjölbreyttir innan þessa geira. Meðal umsækjenda eru jafnt ungir menn sem er að hefja sitt framhaldsnám og eldri einstaklingar sem sumir hafa flosnað upp úr námi við stofnun fjölskyldu eða af öðrum ástæðum og vilja sækja sér þessa menntun. Engin kona er meðal umsækjenda þótt Lilja Björg segi að námið henti þeim ekki síður en körlum.

Lilja Björg segir að skortur sé á starfsmönnum með þessi réttindi út um allt land en það sé alls ekki bundið við Vestmannaeyjar. Vinnslustöðin hafi hins vegar ákveðið að bregðast við með þeim hætti að bjóða fram námsstyrki. Fyrirtækið hefur áður boðið sams konar styrki fyrir nám í rafvirkjun, vélvirkjun, sjávarútvegsfræði og öðrum sviðum þegar þörf hefur verið fyrir meiri þekkingu inn í fyrirtækið. Hún segir að komi upp sú staða að styrkþegar sjái sér ekki fært að vinna hjá Vinnslustöðinni í þrjú ár að námi loknu sé fyrirtækið reiðubúið að semja um endurgreiðslu styrkjanna með sveigjanlegum hætti.