Ljóst er að Fiskmarkaður Íslands í Þorlákshöfn missir spón úr sínum aski þegar skip Ísfélagsins hætta að landa í Þorlákshöfn. Megnið af þeim fiski hefur farið í vinnslu félagsins en aukategundir ýmsar hafa verið seldar á fiskmarkaðnum. Þetta eru þó ekki stórar tölur í heildar samhenginu en eins og Ingigerður Eyglóardóttir, framkvæmdastjóri fiskmarkaðarins, segir þá munar um allt.

5.600 tonn á þessu ári

Jón á Hofi ÁR seldi t.a.m. 80 tonn á markaðnum frá áramótum, aðallega ýsu, löngu og skarkola og aðrar tegundir. Metár var í umsýslu fiskmarkaðarins 2022 þegar alls 7.700 tonn fóru í gegnum markaðinn. Það ár skilaði sér mikið af ufsa inn á markaðinn en í fyrra og á þessu ári hefur lítið borið á þeirri tegund. Á almanaksárinu 2023 fóru 6.500 tonn í gegnum húsið en það sem af er þessu ári 5.600 tonn.

Ingigerður Eyglóardóttir framkvæmdastjóri Fiskmarkaðar Íslands í Þorlákshöfn.
Ingigerður Eyglóardóttir framkvæmdastjóri Fiskmarkaðar Íslands í Þorlákshöfn.

Grindavíkurbátar hafa landað talsvert í Þorlákshöfn en þó ekki bátar Gjögurs hf., Vörður ÞH og Áskell ÞH, sem áður lönduðu í Grindavík en landa nú í Hafnarfirði.

„Smyril Line er hérna við hliðina á okkur og þar fer gríðarlegt magn í gegn til Evrópu. Það er örugglega spennandi kostur fyrir marga að stunda hér bolfiskvinnslu því ljóst er að fyrirtæki gætu dregið talsvert úr flutningskostnaði.“