Meðal nokkurra frumvarpa matvælaráðherra, sem nú bíða afgreiðslu alþingis, er eitt sem heimilar veiði á hnúðlax með ádráttarnetum árin 2023, 2024 og 2025. Þetta er gert í ljósi þess að síðustu árin hefur hnúðlöxum fjölgað mjög íslenskum ám.
Í greinargerð með frumvarpinu segir að tilvist hans og hrygning sé nú staðfest í mörgum ám og vötnum landsins. Búast megi við því að hnúðlaxinn geti haft neikvæð vistfræðileg áhrif á aðra stofna laxfiska í íslenskum ám. Stofnstærð hnúðlax mun líklega aukast og nánast er talið útilokað að hægt verði að fjarlægja hann alfarið. Þetta er nýr veruleiki í ám og vötnum landsins.
Veiðifélög hafa brugðist við með því að sækja um leyfi til að stemma stigu við fjölda hnúðlaxa, en þá kom í ljós að engin lagaheimild er til þess að veita leyfi til veiða í ádráttarnet. Slík veiðarfæri er samkvæmt núgildandi lögum einungis heimilt að nota í vísindaskyni eða til öflunar klakfisks.
Í greinargerðinni segir að með bráðabirgðaákvæði til þriggja ára gefist tækifæri til að rannsaka hvernig og hvort hægt er að eyða eða fækka hnúðlaxi í ám.
Viðbrögð í Noregi
Í Noregi er um þessar mundir einnig verið að hvetja til þess að hnúðlax sé veiddur með sérhannaðri fleygnót, eða kilenot eins og það nefnist á norsku.
Norska hafrannsóknastofnunin, Havforskningsinstituttet, segir hnúðlaxinn vera afbragðs matfisk ef hann er veiddur í sjó áður en hann gengur upp í árnar. Þegar hann er kominn upp í árnar verði hann hins vegar óætur og deyr loks að lokinni hrygningu.
Atlantshafslax gengur að mestu leyti upp í árnar fyrir 15. júlí en hnúðlax fer ekki að ganga upp í árnar fyrr en eftir þann tíma.
Fleiri en nokkru sinni
Árið 2021 veiddust fleiri hnúðlaxar en nokkru sinni í íslenskum ám, alls 339, flestir á Austurlandi og Norðurlandi eystra. Hnúðlaxinn hefur þann eiginleika að stofnar hans eru sterkari á oddatölum en sléttum tölum og má því búast við að sterkur stofn gangi upp í íslenskar ár sumarið 2023.
Flestir hnúðlaxar voru veiddir á Austurlandi eða 133 alls og Norðurlandi eystra þar sem 71 veiddist. Í stangveiði voru skráðir 323 hnúðlaxar og 16 skráðir í netaveiði. Vitað er um hnúðlaxa úr fleiri ám sem ekki voru skráðir í veiðibækur eða skilað gögnum um.
Sá fyrsti 1960
Hnúðlaxar hafa lengi sést í íslenskum ám en fyrsti hnúðlaxinn sem vitað er um að hafi veiðst hér á landi var árið 1960 í Hítará á Mýrum en hnúðlaxa í Evrópu má rekja til tilrauna Rússa með hafbeit á hnúðlöxum í ám við Hvítahaf og á Kolaskaga.
Ástæða þess að mest veiðist á Austurlandi er líklega sú að það landsvæði liggur næst þeim ám í Rússlandi og Noregi þar sem viðkoma hnúðlaxa hefur verið hvað mest og þeir því villst af beitarsvæðum í hafi og numið land hér á landi.
Flestir hnúðlaxanna voru veiddir neðarlega í ám, þó er vitað um dæmi þar sem þeir hafa verið ofarlega í vatnakerfum t.d. í Brúará um 35 kílómetra frá ósi Ölfusár. Staðfest er að hnúðlax hefur hrygnt á Íslandi en áður hafa fundist hrygnur sem voru ný hrygndar.