Bresk og færeysk stjórnvöld hafa komist að samkomulagi um veiðiheimildir. Samkomulagið tryggir breskum útgerðum tækifæri til veiða á 2.000 tonnum í færeyskri lögsögu á yfirstandandi ári.

Verðmæti samkomulagsins fyrir Bretland er metið á fimm milljónir punda árlega, sé byggt á fiskverði fyrri ára. Það veitir breskum sjómönnum aðgengi að fjölda fisktegunda í færeyskri lögsögu, þar á meðal 880 tonnum af þorski og ýsu, 575 tonnum af ufsa en auk þess karfa, blálöngu, löngu, flatfiski og öðrum tegundum.

Hluti af samkomulaginu er að báðir aðilar taka þátt í sameiginlegum vettvangi sem ætlað er að efla fiskveiðieftirlit og fiskveiðistjórnun.

„Með þessum samningi lýkur sjávarútvegsviðræðum Bretlands fyrir árið 2025 sem munu sjá til þess að fiskiskipafloti okkar mun geta nýtt sér kvóta sem hefur verið tryggður í gegnum samninga við önnur ríki,“ segir Daniel Zeichner, sjávarútvegsráðherra Bretlands.

Áður höfðu bresk stjórnvöld samið við Evrópusambandið, Noreg og fleiri strandríki um fiskveiðiréttindi. Þessir samningar hafa tryggt möguleika breskra útgerða á veiðum á samtals 750.000 tonnum á yfirstandandi ári. Veiðiheimildirnar eru metnar á samtals 960 milljónir punda, rúma 165 milljarða ÍSK.