Það er ekki óalgengt að þreyttir fuglar tylli sér á skip og hvílist þar áður en haldið er áfram flugi. Gjarnan er mest um þessar hvíldarstundir fuglanna á haustin og helst þegar veður eru stirð. Annars láta þeir sjá sig á öllum tímum árs áhöfnum skipanna til gleði.

Áhöfnin á Gullver NS fær oft heimsóknir fugla og hefur ánægju af því að fylgjast með þeim öllum þó sumir veki óneitanlega meiri athygli en aðrir. Skulu hér tekin tvö dæmi um slíkar heimsóknir.

Í aprílmánuði sl. kom brandugla í heimsókn til þeirra Gullversmanna og dvaldi um borð í skipinu í rúman sólarhring. Gullver var að veiðum á Tánni þegar uglunnar varð vart en Táin er um 45 mílur suður af Grindavík. Þegar Gullver kom til löndunar í Vestmannaeyjum yfirgaf fuglinn skipið og flaug þá upp í bjarg.

Branduglan sem heimsótti Gullversmenn. Mynd/Valgarður Freyr Gestsson
Branduglan sem heimsótti Gullversmenn. Mynd/Valgarður Freyr Gestsson

Í síðustu veiðiferð Gullvers kom gráhegri í heimsókn. Þegar hegrinn settist á skipið var það að veiðum á Barðinu sem er 24 sjómílur austur af Hvalnesi. Gráhegrinn var hinn rólegasti og þegar hann var orðinn þurr og úthvíldur kvaddi hann með virktum.