Börkur NK er á leið til Neskaupstaðar með 1.400 tonn af íslenskri sumargotssíld sem veiddist vestur af landinu.

Þetta kemur frá á vef Síldarvinnslunnar. Þar segir að Börkur sé væntanlegar til hafnar í kvöld. Þá muni vinnsla aflans hefjast í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar.

Veitt norðar en undanfarin ár

„Það er fallegasta síld, svipuð og verið hefur. Síldin er 290 – 310 grömm. Við vorum að veiða norðarlega á Látragrunnskantinum, en það er norðar en veitt hefur verið undanfarin ár vestur af landinu. Aflinn fékkst í fjórum holum. Þetta voru þrjú um 400 tonna hol og eitt 150 tonna. Veiðin gekk bara ljómandi vel,“ sagði Ólafur Gunnar Guðnason stýrimaður á Berki er tíðindamaður heimasíðu Síldarvinnslunnar ræddi við hann í morgun. Þá var skipið út af Hraunhafnartanga á Melrakkasléttu.

Fram kemur að með afla Barkar í þessari veiðiferð meðtöldum hafi Síldarvinnsluskipin veitt hátt í 15.000 tonn af íslenskri sumargotssíld á árinu. „Megnið af síldinni hefur veiðst vestur af landinu en eins veiddist íslensk sumargotssíld með norsk-íslenskri síld austur af landinu,“ segir á svn.is.