„Við fengum að vita af þessu rétt fyrir helgi. Nú er þetta bara hjá Byggðastofnun,“ segir Sigurður Henningsson, útgerðarmaður í Grímsey, um nýja reglugerð sem gerir Byggðastofnun kleift að úthluta Grímseyingum byggðakvóta án vinnsluskyldu í eyjunni eins og til stóð að setja á.

Vinnsluskyldan algerlega óraunhæf

„Það er verið að skoða að við þurfum að slægja allan afla hérna í eyjunni. Það er hentugra fyrir okkur miðað við leiðir á milli, veður og annað,“ segir Sigurður sem ásamt bræðrum sínum Jóhanni og Henning gerir einn bát út á ufsa frá Grímsey og rekur Fiskmarkað Grímseyjar.

Sigurður segir kröfuna um vinnsluskyldu í Grímsey hafa verið algerlega óraunhæfa og fagnar því að nú líti út fyrir að hún sé úr sögunni með nýrri reglugerð Bjarna Benediktssonar matvælaráðherra.

Menn hafi áttað sig

„Það væri annað ef maður væri með verkun á Dalvík til dæmis og maður gæti komist í hráefni ef mann vantaði. Það er kannski bræla hér í viku og hvað eigum við þá að gera við mannskapinn sem við erum með í verkun ef við höfum ekki hráefni? Og flutningskostnaðurinn hérna á milli eftir að Vegagerðin tók við ferjunni er náttúrlega bara út í hött,“ segir Sigurður.

„Þegar búið var að skýra þetta held ég að menn hafi einfaldlega áttað sig á því að þetta er ekkert það sama eins og að búa við landið. Við erum að borga fimmtíu krónur auka fyrir olíuna miðað við Dalvík,“ heldur Sigurður áfram.

Eingöngu á ufsa árið um kring

Bræðurnir einbeita sér að ufsa og Sigurður segir veiðarnar hafa gengið vel að undanförnu. Á sunnudag hafi þeir landað tæpum sjö tonnum sem fengust í þrjár trossur. Það sé mjög gott.

„Það er búið að vera gott hjá okkur en við þurfum að sækja aðeins lengra. Við erum eingöngu á ufsa allt árið um kring. Við reynum að sækja í það, það er eina tegundin sem maður getur leigt til sín á hagstæðu verði,“ segir Sigurður Henningsson.