Vísisskipin hafa landað allvíða að undanförnu en aflabrögð hafa verið þokkaleg. Hér á eftir verður greint frá aflabrögðum og löndunum skipanna síðustu dagana að krókaaflamarksbátnum Fjölni GK undanskildum.
Ísfisktogarinn Jóhanna Gísladóttir GK landaði á Grundarfirði sl. sunnudag. Afli skipsins var 74 tonn að afloknum fjögurra sólarhringa túr. Einar Ólafur Ágústsson skipstjóri sagði að aflinn hefði verið blandaður en mest hefði verið af ýsu. „Við veiddum út af Vestfjörðum. Byrjuðum í Þverálsbotni en síðan var veitt á Kögurgrunni, Straumnesbanka, í Djúpál og á Deildargrunni. Það var allavega veður, gott framan af en síðan bræla”, sagði Einar.
Jóhanna Gísladóttir hélt til veiða strax að löndun lokinni og hafði þá Smári Rúnar Hjálmtýsson sest í skipstjórastólinn. Komið var til löndunar á ný í Hafnarfirði í gær. Smári sagði að veiðin hefði verið fín í túrnum. „Við fengum rúmlega 72 tonn og er aflinn þorskur og karfi til helminga. Þorskurinn er mjög fallegur, stór og góður vertíðarþorskur. Við vorum að veiðum í Kolluálnum allan tímann. Það verður haldið til veiða á ný strax að löndun lokinni,” sagði Smári.
Páll Jónsson GK
Línuskipið Páll Jónsson GK landaði í Grindavík á mánudagsmorgun. Aflinn var 97 tonn og var hann blandaður. Benedikt Jónsson skipstjóri sagði að áhöfnin væri ágætlega sátt við túrinn. „Þetta var þokkalegasti túr og við erum mjög sáttir við að þorskur er einungis 40% af aflanum. Það þarf að gæta þess að þorskur sé ekki of hátt hlutfall aflans. Við fórum afar stutt í túrnum. Það var byrjað austur við Hópið og síðan farið austur eftir á Tangahraun, í Krikann, Kirkjuhraun og á Háaleiti. Síðustu tvær lagnirnar voru síðan dýpra, í Grindavíkurdýpinu. Fyrstu fjórar lagnirnar voru á 30-60 föðmum en síðan var lagt á 60-80 föðmum þegar dýpra var komið. Við leggjum yfirleitt ekki svona grunnt eins og gert var framan af í túrnum enda oft mikið um smábáta upp við landið. Nú brá hins vegar svo við að það voru nánast engar trillur þarna,” sagði Benedikt.
Páll Jónsson hélt til veiða á ný að löndun lokinni á mánudagskvöld.
Sighvatur GK
Línuskipið Sighvatur GK landaði 93 tonnum í Þorlákshöfn í gær. Óli Björn Björgvinsson skipstjóri sagði að farið hefði verið þangað vegna þess að erfitt væri að fara inn í Grindavíkurhöfn í suðvestanátt eins og var í gær. „Við fengum gott í fyrstu lögninni í túrnum en síðan var enginn kraftur í þessu. Við byrjuðum á Stórahrauni sunnan við Surt en síðan var lagt á Landsuðurhrauni og norðan við Landsuðurhraun. Að lokum var síðan lagt vestan við Surt. Fiskurinn sem fékkst var fínn. Þorskurinn stór og fallegur og síðan vorum við með tæp 40 tonn af löngu,” sagði Óli Björn.
Sighvatur hélt til veiða strax að löndun lokinni.