Frystitogarinn Blængur NK kom til Neskaupstaðar á miðvikudaginn að aflokinni 24 daga veiðiferð. Aflinn var tæplega 700 tonn að verðmæti tæplega 300 milljónir.
Þetta kemur frá á heimasíðu Síldarvinnslunnar þar sem rætt er við Sigurð Hörð Kristjánsson skipstjóra.
„Við fórum hringinn í kringum landið og það var allvíða veitt. Við byrjuðum fyrir austan land og færðum okkur síðan suður fyrir að leita að ufsa. Við tókum gulllax á Skeiðarárdýpinu og að því loknu var farið vestur í Víkurál og á Halamið og áfram leitað að ufsa og reyndar einnig karfa. Fljótlega skall á slæmt veður fyrir vestan og þá var haldið austur en þegar þangað var komið versnaði veðrið þar,“ er haft eftir Sigurði sem kveður veðrið hafa verið mjög rysjótt og og vindurinn oft 15 til 20 metrar á sekúndu.
Framleidd um 18 tonn af frosnu á dag
„Þó verður að segja að brælan er mun notalegri fyrir austan en fyrir vestan. Skaksturinn er mýkri hér austur frá. Annars eru menn orðnir þreyttir á veltingi þegar líður á svona túr. Aflinn í túrnum er mjög blandaður, það er mest af karfa en síðan er þetta þorskur, ufsi, ýsa, gulllax og grálúða. Við komum með að landi 426 tonn af frystum afurðum og það þýðir að það voru framleidd um 18 tonn af frosnu á dag og það er bara býsna gott ekki síst í ljósi þess að langur tími fór í siglingar,” segir Sigurður Hörður á svn.is þar sem áhöfninni er óskað betra veðurs í næsta túr sem hefst í kvöld.