Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda vilja fá keypt tíu þúsund tonna kvóta í þorski á fiskveiðiárinu sem hefst 1. september 2025 og greiða fyrir það einn og hálfan milljarð króna.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum þar sem vísað er í samþykkt á aðalfundi samtakanna í gær.
„Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda gera stjórnvöldum sams konar tilboð og Landssamband smábátasjómanna hefur þegar gert. Það er að fá úthlutað 10.000 tonnum af þorski á fiskveiðiárinu sem hefst 1. september 2025. Fyrir þetta eru aðildarfélög SFÚ tilbúin að greiða enn hærra verð en LS eða 1,5 milljarða króna.
Hvað þetta tilboð varðar er vísað til álits Samkeppniseftirlitsins frá árinu 2012. Þar segir: „vill Samkeppniseftirlitið árétta þau tilmæli sem beint var til þáverandi sjávarútvegsráðherra að unnt væri að auka samkeppni og nýliðun í greininni með því að auka heimildir til kvótaframsals, t.a.m. með því að aðilar sem ekki ættu fiskiskip gætukeypt, leigt og selt aflaheimildir.“
Í þessu samhengi má einnig benda á að í dag eru greiddar 26,66 krónur í ríkissjóð sem veiðigjald af hverju kg af þorski eða sem svarar til 267 milljóna per 10.000 tonn.
SFÚ vill einnig hvetja stjórnvöld til þess að styðja við strandveiðar með öllu móti. Tilkoma strandveiða er sú breyting á fiskveiðistjórnunarkerfi okkar sem best hefur hepnast undanfarna áratugi. Þetta er fullyrt með tilliti til eftirfarandi atriða:
- Aukinnar atvinnu víðs vegar um landið.
- Aukins framboðs á hráefni sem selt er á opnum markaði og aukinna atvinnutækifæra sem því tengjast.
- Síðast en ekki síst vegna aukinna tekna vegna strandveiðanna. Á það við um hafnarsjóði landsins og sjómenn landsins, að ekki sé minnst á auknar tekjur ríkissjóðs.
SFÚ telur að stjórnvöld ættu að stefna á 6 mánaða strandveiðiútgerð og tvöföldun á því magni sem í veiðarnar hefur verið veitt. Stjórnvöld ættu einnig að hlúa að kerfinu í alla staði með tilliti til atvinnuveiða án þess þó að gefa eftir í vistvæni og umhverfisnálgun,“ segir í tilkynningu Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda.