Grænlenska uppsjávarskipið Polar Ammassak hefur verið á loðnuveiðum undanfarnar vikur skammt austur af Íslandi. Íslensku uppsjávarskipin eru öll á kolmunnaveiðum.

Fínasta loðnuveiði hefur verið austur af landinu undanfarið að sögn Guðmundar Hallssonar, skipstjóra á grænlenska uppsjávarskipinu Polar Ammassak. Skipið landaði 1.450 tonnum af loðnu í Neskaupstað á mánudag og ætlunin var að halda aftur til veiða þegar veður yrði skaplegt á ný í gær.

„Það er smá veðurgluggi fram að helgi. Þá er næsta bræla,“ sagði Guðmundur þegar Fiskifréttir náðu tali af honum á þriðjudag.

Þetta var annar loðnufarmur skipsins frá áramótum og Guðmundur sagðist reikna með fínni loðnuvertíð. Loðnan hafi fengist austur af Langanesi og suður undir Vopnafjörð, um 50 til 60 sjómílur frá landi. Vel hafi gengið að ná fínni loðnu, en aðalvandinn sé þó að staðsetja skipið.

Hinir á kolmunna

„Það tekur alltaf smá tíma að finna fiskinn þegar við erum einskipa. Við höldum okkur svo á sama blettinum um leið og maður finnur hann. Maður fer ekkert að leita meðan maður hefur fisk undir. En maður gerir sér litla grein fyrir því hvort það er mikið magn eða lítið magn.“

Íslensku uppsjávarskipin hafa öll verið á kolmunnaveiðum og láta loðnuna eiga sig í bili. Hitt grænlenska loðnuskipið, Tasiilaq, er í landi í Þórshöfn á Langanesi vegna bilunar en Guðmundur sagðist reikna með því til veiða fljótlega.

Guðmundur segist góða stemmningu vera um borð og hann sé bjartsýnn á loðnuvertíðina framundan.

„Ég hef ekki trú á öðrum en að Hafró finni meiri loðnu fyrir okkur. Ef það er gott veður þá eru þeir mjög fljótir að fara yfir svæðið, sérstaklega eftir frumrannsóknir hjá Árna núna.“

Árni í grennd

Rannsóknaskipið Árni Friðriksson hefur verið á svipuðum slóðum austur af landinu undanfarna daga í forkönnunarleiðangri áður en hin eiginlega loðnuleit hefst, en hélt áfram norður fyrir land og hefur verið að fikra sig áfram vestur eftir í áttina að hafísröndinni við Grænland.

Það er grænlenska útgerðarfélagið Polar Pelagic sem gerir út uppsjávarskipin Polar Ammassak og Tasiilaq, en Síldarvinnslan á 30%í fyrirtækinu. Guðmundur hefur verið hjá útgerðinni síðan um aldamótin og lætur vel af því að vinna fyrir Grænlendingana.

Skipin landa aflanum hér á landi enda lítil sem engin uppsjávarvinnsla á Grænlandi, fyrir utan smá loðnuvinnslu.

„Þetta eru allt saman grænlenskir kvótar sem við erum að veiða fyrir þá, bæði loðna og síld, skiptikvótar. Á síldinni er það bara skiptikvóti við Færeyjar.“

Sáu óverulegt magn

Rannsóknarskipið Árni Friðriksson hefur verið í loðnukönnunarleiðangri undanfarið, en eiginleg loðnuleit hefst svo í framhaldinu. Mögulega strax eftir helgi.

„Það varð ekkert vart við loðnu fyrir austan fyrr en komið var austur af Langanesi, eða á svipuðum slóðum og grænlensku veiðiskipin voru við veiðar, en magnið þar var óverulegt,“ segir Guðmundur J. Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar, um afrakstur könnunarleiðangursins hingað til.

„Í framhaldinu hefur verið loðnu að sjá fyrir norðan land en ekki mikið.“

Hann segist reikna með að þessari grófu yfirferð á Árni Friðrikssyni ljúki á föstudag eða um helgina.

„Við munum allavega taka ákvarðanir á föstudaginn um framhaldið og þá hvort farið verði í stofnmælingar strax eftir helgi.“

Niðurstöður loðnuleitarinnar verða svo lagðar til grundvallar endanlegri loðnuráðgjöf Hafrannsóknastofnunar á þessari vertíð. Fylgjast má með ferðum skipsins hér.

Markmið forkönnunarinnar er að safna upplýsingum um göngur og dreifingu loðnustofnsins fyrir austan og norðan land, en þær upplýsingar eru notaðar til að ákveða hvenær best sé að halda til mælinga á loðnustofninum svo mælingin verði sem markverðust.