Tilkynning Hafrannsóknastofnun um að loðnukvóti yrði aukinn um að minnsta kosti 100 þúsund tonn varð til þess að uppsjávarfyrirtæki þurftu strax að endurskipuleggja starfsemina. Síldarvinnslan í Neskaupstað fór þá leið að undirbúa strax Bjarna Ólafsson AK til veiða. Fyrir síðustu makrílvertíð hafði áhöfn Bjarna Ólafssonar verið flutt yfir á Barða NK og hefur skipið legið í Norðfjarðarhöfn síðan í lok ágústmánaðar. Ráða þurfti áhöfn á Bjarna Ólafsson í skyndi og hefur það nú verið gert. Ráðgert er að skipið haldi til veiða í dag og verður Atli Rúnar Eysteinsson skipstjóri.

Atli Rúnar Eysteinsson skipstjóri.
Atli Rúnar Eysteinsson skipstjóri.

Til að byrja með verður Runólfur Runólfsson Atla Rúnari til halds og trausts en Runólfur var lengi skipstjóri á Bjarna Ólafssyni og gjörþekkir skipið. Þegar Bjarni Ólafsson heldur til veiða verða loðnuskip Síldarvinnslunnar á vertíðinni fjögur talsins en fyrir eru Barði NK, Beitir NK og Börkur NK.

Góð veiði vestur af Vestmannaeyjum

Samfelld vinnsla hefur verið í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Nú er verið að landa úr Vilhelm Þorsteinssyni EA sem er með 2.100 tonn en áður höfðu 1.550 tonn komið á land úr Beiti NK. Þá er Börkur NK á leiðinni með 2.500 tonn en góð veiði hefur verið vestur af Vestmannaeyjum. Vinnslan í fiskiðjuverinu hefur gengið afar vel og hráefnið hefur verið gott. Skipin eru nú að melda 19% hrognafyllingu þannig að ekki eru margir dagar í hrygningu. Þegar þetta er ritað hefur fiskiðjuverið í Neskaupstað tekið á móti um 18.000 tonnum á vertíðinni.