Rólegt var yfir kolmunnaveiðum suðaustur af landinu  í byrjun vikunnar en bræla hafði dálítið sett strik í reikninginn hjá uppsjávarskipunum. Veðrið var að ganga niður og menn vongóðir um að kippur kæmi í veiðarnar

„Við vorum að koma hérna út. Það er búin að vera bræla síðan um helgina og við vorum að kasta,” sagði Grétar Rögnvarsson, skipstjóri á Jóni Kjartanssyni SU, þegar slegið var á þráðinn til hans í byrjun vikunnar. Skipið var þá ásamt sjö öðrum íslenskum uppsjávarskipum í sínu fyrsta kasti eftir að veðrið gekk niður. Sömu sögu var að segja um aðra á miðunum sem voru sunnarlega í Rósagarðinum.

„Það sem er að veiðast er allt innan lögsögunnar en við erum bara að byrja eftir brælu og skipin komu á miðin í gær [mánudag]. Við eigum eftir líklega fjóra túra og í heildina held ég að það séu eftir um 50.000 tonn. Þetta var ágætis kvóti og vonandi næst hann allur,“ segir Grétar.

Hann segir að menn leiði hugann vissulega að því hvort gefinn verði út loðnukvóti og eina sem menn geti gert er að vonast til þess að svo verði.

Ekki kröfuharðir á magnið

Róbert Hafliðason á Víkingi AK hafði sömu sögu að segja. „Það var greinilega eitthvað af kolmunna hérna í vesturkantinum sem menn ætla að prufa að kasta á núna og það gæti alveg komið kippur í veiðarnar fljótt." Umræðan um borð í Víkingi snerist dálítið um það í morgunsárið hvort það stæði til að fara að gefa út með það hvort það yrðu loðnuveiðar eða ekki. „Það hlýtur að koma á föstudaginn. Eða er það ekki alltaf á föstudögum klukkan fjögur sem tilkynningin kemur?“

Róbert kveðst ekkert sérstaklega bjartsýnn á að gefinn verði út loðnukvóti en hann vonar þó hið besta. Verði engin loðna snúi menn sér að kolmunna í janúar en að öðru leyti verði uppsjávarskipin verkefnalaus. „Við höfum sagt það í mörg ár að við þurfum ekki mikinn loðnukvóta til þess að hafa það ágætt. Vonandi finna þeir eitthvað til þess að henda í okkur og vonandi verður eitthvað að frétta í þessari viku. Við erum ekki kröfuharðir á magnið,“ sagði Róbert.