Loðnuleit hófst í byrjun vikunnar og er ráðgert að hún standi fram í miðja næstu viku, eða svo.

Auk rannsóknaskipanna Árna Friðrikssonar og Bjarna Sæmundssonar tekur Beitir NK þátt í leitinni. Beitir hélt úr höfn frá Neskaupstað í gær, en Beitir er eina veiðiskipið sem tekur þátt í leitinni að þessu sinni.

Misræmi í niðurstöðum

Misræmi í niðurstöðum loðnumælinga milli ára er, að sögn Hafrannsóknastofnunar, ástæða þess að haldið er í loðnumælingaleiðangur nú í desember. Veiðiskip frá Síldarvinnslunni mun taka þátt í leiðangrinum og „aðstoða við að afmarka dreifingu loðnustofnsins sem flýtir fyrir mælingum rannsóknaskipanna.“

Þá segir stofnunin frá því að þessar rannsóknir séu gerðar að frumkvæði útgerða uppsjávarskipa og kostaðar af þeim.

„Mælingarnar í fyrra bentu til þess að veiðistofninn á vertíðinni 2022/23 yrði mun stærri en haustmælingin í ár bendir til og ráðgjöf um aflamark byggir á,“ segir jafnframt í tilkynningu Hafrannsóknastofnunar.

Beitir siglir 360 mílur

„Okkur er ætlað að leita á svæðinu frá Glettinganesi og norður að Melrakkasléttu. Það er þegar búið að ákveða leitarleggina sem við eigum að fara. Þeir eru samtals um 360 mílur. Við ættum að ljúka við okkar verkefni á morgun, föstudag,“ er haft eftir Sturlu Þórðarsyni, skipstjóri á Beiti, á vef Síldarvinnslunnar.

Síldarvinnslan segir niðurstöðu loðnumælinga í september síðastliðnum hafa valdið vonbrigðum „og er vonast til að leitin nú leiði til endurskoðunar á þeirri veiðiráðgjöf sem gefin var út í kjölfarið.“

Hafrannsóknastofnun lagði til að ekki yrði veitt meira en 218 þúsund tonn við landið á komandi vertíð. Þar af myndu íslenskar útgerðir fá um 134 þúsund tonn í sinn hlut.

Tvíþætt markmið

Hafrannsóknastofnun segir markmið leiðangra í desember vera tvíþætt: „Í fyrsta lagi að fá mynd af útbreiðslu veiðistofnsins sem nýtist bæði við skipulagningu á mælingum Hafrannsóknastofnunar á stærð stofnsins í janúar næstkomandi svo og skipulagningu flotans á veiðum næstu vikurnar. Í öðru lagi er vonast eftir því að marktæk mæling á stærð veiðistofnsins náist sem mögulega leiddi til endurskoðunar á veiðiráðgjöf fyrir komandi loðnuvertíð.“

Fylgjast má með framvindu leitarinnar á vefsíðunni skip.hafro.is