„Barði og Margrétin frá Samherja eru búin að vera partolla með eitt stórt troll tvö skip það sem af er þessari vertíð. Ég er með annan vænginn á trollinu tengdan hjá mér og Margrét er með hinn vænginn. Þá getum við dregið miklu stærra troll,“ segir Theodór Haraldsson, skipstjóri á Barða NK, frá makrílmiðunum fyrir austan land.
Þessa aðferð segir Theodór hafa verið mikið stundaða þegar menn hafi verið að byrja á makrílnum hér í kring um 2010 til 2012.
„En svo jókst makrílveiðin það mikið að það var ekkert mál að fiska mikið bara með eitt troll aftan í einu skipi. Núna var farin að tregast veiðin og það var ákveðið að prófa þetta. Það er að koma vel út, við erum að fá svolítið meira heldur en þeir sem eru að draga bara sitt troll“ segir hann.
Þetta fer þannig fram að sögn Theodórs að skipin skiptast á að kasta trollinu.
Staðan farið versnandi
„Þá köstum við til dæmis okkar trolli og svo þegar ég er kominn með það klárt aftan í bátinn þá kemur Margrétin upp að mér og sækir annan vænginn á trollinu og tengir við hjá sér. Síðan siglir hann fimm hundruð metra frá mér og trollið er strekt á milli okkar. Svo þurfum við að vera á sömu stefnu og sama hraða og reynum að fá torfurnar á milli bátanna,“ útskýrir Theodór.
Þegar rætt er við Theodór í gær, þriðjudag, segir hann lítið í gangi. „Það eru flest skipin komin með svona einn nema sem er í kring um tíu tonn á tímann. Síðustu tveir dagar hafa verið mjög slakir, búið að vera að leita mikið og draga víða fyrir mjög lítinn afla,“ segir hann. Svo virðist sem minna magn sé á ferðinni núna en í fyrra.
Rússar leita en finna ekkert

„Við byrjuðum í Síldarsmugunni. Það var lítið af fiski þar og svo fannst fiskur í íslensku lögsögunni og það fóru öll íslensku skipin í það. Það var bara fínasta veiði í fjóra eða fimm daga en svo hefur bara verið versnandi ástandið eftir það. Það er minna um fisk og minni blettir,“ segir Theodór . Menn vonist til að geta haldið áfram í íslenskri lögsögu.
„Það er ekkert að frétta úr Síldarsmugunni eins og er. Það er mikið af Rússum þar sem eru að leita mjög víða og það virðist vera mjög takmarkaður árangur þar. Þannig að við þrjóskumst áfram í íslensku lögsögunni á meðan við fáum einhvern fisk og vonum bara að það eigi frekar eftir að bæta í heldur en að minnka,“ segir Theodór sem hefur ekki skýringar á því að minna sé af makríl nú en í fyrra. „Það virðast vera öll skilyrði fyrir makrílinn í dag, heitur sjór og nóg af átu, en það er bara lítið um hann.“
Makrílinn sem veiðist segir Theodór hins vegar vera stóran og fallegan, meðalvigtin sé um 570 grömm og alveg yfir 600 grömm. „Hann fer alveg í dýrasta flokk í vinnslunni. Þetta fer allt í frystingu og til manneldis,“ segir hann.
Færeyingar gáfust upp við miðlínuna
Íslensku skipin hafa verið í Rósagarðinum, út við miðlínuna milli Íslands og Færeyja. „Það voru Færeyingar hinu megin við línuna í einn sólarhring fyrir tveimur dögum en þeir gáfust upp, það hefur greinilega ekki verið fiskur þar,“ segir Theodór.
Makrílinn núna sést ekki vel í tækjum. „Þetta er bara það lítið magn að maður sér þetta illa. Einn dag fengum við almennilega veiði þar sem við sáum þetta vel og þá var gott að snara þetta í trollin annars hefur þetta verið illsjáanlegt á tæki það sem af er vertíðinni,“ segir Theodór. Það er því dálítið verið að renna blint í sjóinn. „Eins og núna í dag þá erum við að draga í kring um átuflekk sem maður sér á tækin í þeirri von að það sé einhver fiskur í því. Og það er svo sem að skila einhverju núna því við vorum að hífa um 190 tonn.“