Barði NK hefur verið í flotkví Slippsins á Akureyri í tvær vikur en fór á flot í gær. Starfsmenn Slippsins hafa sinnt almennu viðhaldi á skipinu. Í gærkvöldi lagði Barði síðan af stað til Neskaupstaðar og þar verða tekin veiðarfæri um borð áður en haldið verður til kolmunnaveiða í færeyskri lögsögu. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi stuttlega við Theodór Haraldsson skipstjóra og spurði hann hvenær gert væri ráð fyrir að haldið yrði til veiða.
„Við gerum ráð fyrir að koma til Neskaupstaðar um klukkan fjögur í dag og við ættum að vera klárir til að láta úr höfn um miðnætti. Annars er dálítil óvissa í kortunum vegna veðurútlits. Hann spáir illa á fimmtudaginn og þá verður örugglega ekki veiðiveður. Það er búið að vera ágætis nudd hjá kolmunnaskipunum í færeysku lögsögunni að undanförnu og menn eru bara bjartsýnir hvað veiðar varðar. Við erum auðvitað ólmir í að komast á sjóinn eftir þetta hlé,” sagði Theodór.