Breiðafjarðarferjan Baldur hefur siglt sína síðustu ferð í Breiðafirði og liggur nú við festar í Reykjavíkurhöfn. Skipið hefur verið selt til rekstraraðila í karabíska hafinu. Ferjan Baldur var oft kölluð brúin yfir til Vestfjarða. Ferjan sigldi yfir fjörðinn allt árið um kring.
Rekstraraðili Breiðafjarðarsiglinga, Sæferðir, halda uppi ferðum milli Stykkishólms og Brjánslækjar á farþegaskipinu Særúnu meðan verið er að ljúka við standsetningu á nýjum Baldri, áður Röst, hjá Vélsmiðju Orms og Víglundar í Hafnarfirði. Reiknað er með að nýr Baldur verði tekinn í notkun síðar í þessum mánuði.