Matvælastofnun hefur lagt til að Kaldvík ehf fái ekstrarleyfi sem heimila annars vegar eldi á 6.500 tonn af frjóum laxi og hins vegar 3.500 tonn af ófrjóum laxi í Seyðisfirði.
Þetta kemur fram í eftirfarandi tilkynningu Matvælastofnunar:
„Matvælastofnun hefur unnið tillögu að rekstrarleyfi vegna sjókvíaeldis Kaldvíkur hf. með allt að 10.000 tonna hámarkslífmassa af laxi. Hámark lífmassa af frjóum laxi má vera allt að 6.500 tonn. Tillagan byggir á matsskýrslu frá árinu 2020 um 10.000 tonna laxeldi í Seyðisfirði.
Um er að ræða ný rekstrarleyfi sem heimila annars vegar eldi á 6.500 tonn af frjóum laxi og hins vegar 3.500 tonn af ófrjóum laxi í Seyðisfirði. Burðarþolsmat Hafrannsóknastofnunar fyrir Seyðisfjörð gerir ráð fyrir að hægt sé að vera með allt að 10.000 tonna lífmassa í eldi í firðinum. Áhættumat erfðablöndunar Hafrannsóknastofnunar gerir hins vegar eingöngu ráð fyrir að hægt sé að vera með 6.500 tonn af frjóum laxi í firðinum og því eru tvö leyfi auglýst í samræmi við 2.mgr. 10.gr laga 71/2008 um fiskeldi.
Framkvæmdin fór í gegn um mat á umhverfisáhrifum í samræmi við 1. tl. í ákvæði til bráðabirgða í lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021 og fer því um leyfisveitingar vegna framkvæmdarinnar eftir eldri lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000.
Athugasemdir við tillöguna skulu vera skriflegar og sendar Matvælastofnun á [email protected] merktar 18081324. Frestur til að skila inn athugasemdum er til 20. janúar 2025.“