„Ef einhverjir treysta sér ekki til að vinna aflann í landi verða aðrir að taka við honum,“ segir Rúnar Björgvinsson, framkvæmdastjóri Íslensks sjávarfangs, fiskvinnslu án útgerðar í Kópavogi sem vinnur úr um 10 þúsund tonnum af hráefni að jafnaði á ári sem keypt er á mörkuðum og í samningum við báta.
„Ég vil reyndar taka svo djúpt í árinni að ef menn treysta sér ekki til að vinna aflann í landi eigi aflaheimildirnar að fara til þeirra sem treysta sér til þess. Ég fæ ekki séð að auðlindin hafi verið hugsuð til þess að fóðra erlendar vinnslur. Það var aldrei meiningin,“ segir Rúnar.
Hverjir eru skyldir aðilar og hverjir ekki?
Rúnar segir það blasa við að mikil samþjöppun hafi átt sér stað í gegnum árin þegar stærri útgerðir hafi keypt minni. „Það þarf líka að taka á því máli því við verðum að hafa fjölbreytni í útgerð og vinnslu. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt í þeim breytingum sem standa fyrir dyrum að það verði hugað að því að álögur á minni og meðalstórar útgerðir verði ekki auknar. En ég tel víst að stærri útgerðir þoli boðaðar breytingar.“
Hann segir jafnframt mikilvægt að boðað frítekjumark verði nægilega hátt til að breytingin á útreikningi veiðigjalda valdi ekki minni og meðalstórum útgerðum það miklum álögum að það leiði til enn frekari samþjöppunar.
„Það er ekki ákjósanlegt að útgerðin færist á stöðugt færri hendur og það þarf að passa upp á að það verði fjölbreytni í útgerðinni. Kvótaþakið er vissulega 12% en svo snýst málið óneitanlega um það hverjir eru skyldir aðilar og hverjir ekki. Það þarf að skýra það betur.“
Mun ekki færast úr landi
Íslenskt sjávarfang vinnur afurðir úr þorski, ýsu og ufsa. Hráefnið er að mestu keypt á fiskmörkuðum á að jafnaði 25% hærra verði en vinnslur í eigu útgerðarfélaga greiða fyrir það. „Þess vegna þurfum við að hugsa stöðugt um það að koma afurðunum í sem dýrustu pakkningarnar. En auðvitað er það þannig að vinnslan kemur ekki til með að færast úr landi þrátt fyrir hótanir sumra þar um. Í raun ættu stjórnvöld að snúa sér að því verkefni að taka á útflutningi á óunnum fiski. Mér hugnast allar þær leiðir sem tryggja það að við séum ekki hráefnisöflunarþjóð fyrir niðurgreiddar fiskvinnslur í Evrópu.“
Hann segir að láti útgerðin verða af því að stórauka útflutning á óunnum fiski dragist saman það magn sem fer inn á innlenda fiskmarkaði. Það muni leiða til enn frekari fiskverðshækkana. „Staðreyndin er sú að sjálfstæðum fiskvinnslum í landi hefur fækkað mikið á síðustu árum. Þær eru ekki margar eftir. Á síðustu árum hafa þrjár stórar fiskvinnslur hætt sem voru með yfir 100 starfsmenn hver. Þetta er meðal annars afleiðingin af því hve mikið af óunnum fiski fer úr landi. Menn verða að horfa meira á virðisauka vinnslunnar, ekki bara einblína á útgerðina. Nýting auðlindarinnar á að vera í þágu útgerðar en líka vinnslu.“