Six Rivers Iceland, óhagnaðardrifin náttúruverndarsamtök stofnuð af Jim Ratcliffe, stofnanda og stjórnarformanni INEOS, standa 31. maí fyrir árlegri ráðstefnu um hættur þær sem steðja að Atlantshafslaxinum.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Six Rivers Iceland. Þar segir að ráðstefnan sé nú haldin í fjórða sinn og fari í fyrsta skipti fram á Vopnafirði. Þar verði kynntar framtíðaráætlanir og niðurstöður frá verndarstarfi Six Rivers Iceland á Norðausturlandi.
„Meðal þátttakenda eru Hafrannsóknastofnun, Atlantic Salmon Trust, Norski vísinda- og tækniháskólinn (NTNU), Norska náttúrufræðistofnunin (NINA) og fleiri,“ segir í tilkynningunni.
Aðgerðir og nýjar ógnir
„Ekki nægir að einblína bara á laxinn sjálfan, því til að hann dafni þarf heilbrigt vistkerfi. Á þessu er vaxandi skilningur. Six Rivers Iceland kynnir á ráðstefnunni á Vopnafirði áætlanir sínar um aðgerðir til að efla vistkerfi laxins. Eins verður fjallað verður um nýjar ógnir sem að honum steðja og leiðir til að snúa við hnignun stofnsins,“ er haft eftir Dr. Rasmus Lauridsen, rannsóknastjóra Six Rivers Iceland.
Þema ráðstefnunnar er sagt vera „verndun sem nær yfir vatnasviðið allt“ Fjallað verði um ástand villta íslenska laxastofnsins og nýjar hættur sem að honum steðji. Verkefni Six Rivers Iceland á Norðausturlandi styðji við verndarstarf í þágu Atlantshafslaxins um allan heim.
Fjölþjóðlegur hópur sérfræðinga
„Á ráðstefnunni koma saman allir helstu hagaðilar, bæði heimamenn og aðrir innanlands auk fremstu laxasérfræðinga frá Íslandi, Noregi og Bretlandi. Fjallað verður um hnignun laxastofnsins hvarvetna við Norður-Atlantshaf, en stærð stofnsins er komin niður í fjórðung af því sem var á áttunda áratugnum,“ segir í tilkynningu Six Rivers Iceland.
Þá segir að horft verði til aðgerða Six Rivers Iceland til að vernda og styðja við afkomu laxins hér í ljósi alþjóðlegu hnignunar og nýrra þátta sem ógni afkomu stofnsins. Áhersla sé á fyrirliggjandi verkefni um að bjarga laxinum frá brún útrýmingar.
Tilvist Atlantshafslaxins er ógnað segir Ratcliffe
„Tilvist Atlantshafslaxins er ógnað. Með því að leiða saman fremstu sérfræðinga heims á sviði verndunar sem vinna að sama marki ætlum við að deila þekkingu og úrræðum til að grípa inn í hnignun laxins áður en það verður um seinan. Six Rivers Iceland var stofnað með það í huga að vinnan myndi halda áfram árum saman með áframhaldandi samstarfi – en meira þarf til að koma,“ er haft eftir Jim Ratcliffe.
„Okkar von er því að stjórnvöld víðast hvar bregðist við þeim ógnunum sem að laxinum steðja og leggist á árar með okkur,“ er haft eftir Gísla Ásgeirssyni, framkvæmdastjóra Six Rivers Iceland.