Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda, segir félagsmenn afar ósátta við að fylgst sé með þeim úr leyni með eftirlitsdrónum Fiskistofu. Eins og fram hefur komið hefur stofnunin kært sjómann fyrir vestan fyrir að skjóta að dróna á flugi.

„Ég hef talað við fjölda trillukarla um þessi mál og ég hef ekki heyrt í neinum sem er að mæla því bót að kasta fiski. Ég hins vegar heyri í mörgum sem finnst það óþolandi að það sé einhver maður að fylgjast með daglegum athöfnum manna sem eru ekki að brjóta neitt af sér; að það sé bara allt í lagi að það sé einhver að fylgjast með þeim úr fleiri hundruð metra hæð án þess að láta vita af því,“ segir Arthur.

Að sögn Arthurs eru dæmi þess að eftirlitsmenn haft sagt mönnum frá því löngu seinna að þeir hafi verið að fylgjast með viðkomandi í kannski tvo klukkutíma fyrr um sumarið án þess að þeir hafi verið látnir vita af því með formlegum hætti.

Ósáttir við njósnastarfsemi

„Ég er persónulega þeirrar skoðunar að þetta drónaeftirlit ætti að vera kolólöglegt. En með því er ég ekki að mæla brottkasti bót, það er allt annar hlutur,“ undirstrikar Arthur. Í kjölfar þess að Persónuvernd gerði mjög alvarlegar athugasemdir við framkvæmd drónaeftirlits Fiskistofu hafi Alþingi setti inn heimild í lög um að Fiskistofa mætti stunda eftirlitið með þeim hætti. „En við erum bara algjörlega ósáttir við að það megi stunda þessa njósnastarfsemi eins og þeir gera.“

Arthur segir þannig fjölda félagsmanna LS mjög ósátta við að það sé talið í lagi að fylgst sé með því sem þeir eru að gera um borð þar sem þeir séu ekki að brjóta nokkurn skapaðan hlut af sér.

„Eru eftirlitsmenn Fiskistofu komnir í sömu stöðu og lögreglumenn?“ spyr Arthur. Þeir hafi leyfi til að taka upp fiskveiðilagabrot eða brottkast en áðurnefndur maður hafi ekki verið staðinn að slíku. „Fyrir hvað ætla þeir að kæra hann? Ég þarf að sjá gögnin í málinu til að átta mig á því hvert Fiskistofa er að fara með þessu.“

Ekki eðlileg framkoma

Ef tilgangurinn með drónaeftirlitinu sé að koma í veg fyrir brottkast kveðst Arthur telja langbest að látið sé vita á hvaða svæði og hvenær það verði. „Þá er enginn nokkur einasta hætta á því að nokkur maður hendi einum einasta fiski,“ segir hann.

Arthur tekur fram að hann hafi ekki hugmynd um hvort umræddur maður hafi skotið að drónanum eða ekki. „En ég get alveg lofað þér því að ef ég væri að róa og fengi þetta rusl fljúgandi yfir mig, og ég hefði ekki hugmynd um hvort þetta væri frá kafbáti í grenndinni eða Fiskistofu, þá myndi ég ekki hika við að skjóta á þetta. Þetta er algjörlega úr takti við alla eðlilega framkomu við menn,“ segir formaður LS.

VS-heimildir lausnin

Eggert Unnsteinsson, formaður smábátafélagsins Árborgar í Þorlákshöfn. Mynd/Aðsend
Eggert Unnsteinsson, formaður smábátafélagsins Árborgar í Þorlákshöfn. Mynd/Aðsend

Eggert Unnsteinsson, sem gerir út og rær á krókaflamarksbátnum Rafti ÁR 13 frá Þorlákshöfn og er formaður smábátafélagsins Árborgar þar, segir menn einfaldlega telja drónaeftirlit Fiskistofu vera ólöglegt. Ekki einu sinni lögreglan hafi slíkar heimildir nema fyrir liggi rökstuddur grunur. Hann treysti ekki eftirlitsmönnum sem hafi enga sérstaka menntun og menn viti engin deili á.

„Og maður veit alveg hvers konar fólk sækir í svona vinnu. Ég held að það væri ekki hægt að borga mér þau laun sem ég vildi vilja fyrir að njósna um fólk,“ segir Eggert sem kveður nærri sjómönnum gengið. „Þetta gefur ekki mynd af því sem er að gerast. Það er hægt að mistúlka allan andskotann.“

Að sögn Eggerts hefur hann í þrjú ár bent á lausn málsins. „Strandveiðimenn eiga bara að fá að nýta VS-heimildir eins og er við aðrar veiðar. Þá þarf enginn að henda einu eða neinu. Þegar menn eru að borga með ruslinu sem þeir koma með í land þá skilur maður alveg að menn hendi – þó að ég geri það ekki,“ segir hann og biður fólk að setja sig í spor sjómanna.

Kannski að skjóta á svartbak

„Þú vilt ekki hafa einhvern á stofuglugganum hjá þér. Viltu hafa þetta svona í vinnunni þinni? Ætlum við að leyfa skattaeftirlitinu að vera með dróna yfir byggingunum í Reykjavík að reyna að finna einhverja kalla sem hugsanlega eru ekki að borga skattana sína? Það getur vel verið að einhverjir vilji hafa þetta svoleiðis en ég hef ekki hitt smábátasjómann sem er samþykkur þessu, aldrei. Ef hann er til þá er það einhver furðufugl,“ segir Eggert.

Varðandi atvikið fyrir vestan segist Eggert alls ekki telja að þar hafi umræddur skipverji gengið of langt. „Því miður er það ólöglegt að skjóta á þetta en það var bara verst að hann skyldi ekki hitta. Ég veit um marga karla sem eru með byssur um borð, bara út af þessu. Og hvað vitum við? Sá hann drónann? Kannski var hann bara að skjóta á svartbak.“