Árni Sverrisson tók við formennsku í Félagi skipstjórnarmanna af nafna sínum, Árna Bjarnasyni, á auka aðalfundi félagsins þann 30. desember síðastliðinn.

Fyrstu verkefnin í nýju starfi segir hann vera að klára kjarasamninga við farmenn og síðan við skipstjórnarmenn á útsýnisbátum og hvalaskoðunarbátum.

„Svo tekur eitt við af öðru, en aðalmálið er að á fimmtudaginn er fundur hjá sáttasemjara þar sem við erum að fjalla um kjarasamning fiskimanna. Það er auðvitað búinn að vera laus kjarasamningur fiskimanna síðan í desember 2019, í þrjú ár.“

Lifað í voninni

Spurður hvort einhver hreyfing sé að komast á þau mál núna loksins, þá bregst hann við með því að þegja stundarkorn.

„Eigum við ekki að segja það að maður lifir alltaf í voninni,“ segir hann svo.

„Ég kom inn í samninganefnd fiskimanna 2019, þegar ég var ráðinn framkvæmdastjóri félagsins, og hélt að við værum að fara að klára samning fljótlega. En það hefur tekið lengri tíma en ég átti von á. Það strandar á því að útgerðarmenn eru ekki tilbúnir til þess að greiða 3,5 prósent viðbótarframlag í lífeyrissjóð til fiskimanna eins og aðrir launþegar í landinu hafa, nema sjómenn greiði að stærstum hluta fyrir aukninguna.“

Sjálfkjörinn

Árni hefur verið framkvæmdastjóri félagsins síðan 2019 og hefur starfað hjá félaginu síðan 2017. Hann var sjálfkjörinn formaður félagsins á auka aðalfundinum þar sem enginn bauð sig fram gegn honum.

Hann var áður sérfræðingur í sjótryggingum hjá VÍS frá 2008 til 2017, þar áður framkvæmdastjóri Scanmar á Íslandi frá 2004 til 2008. Árni var sjómaður á ýmsum skipum í um 20 ár, lengst af hjá Hafrannsóknastofnun sem stýrimaður og skipstjóri.

Forveri hans, Árni Bjarnason, hafði gegnt formennsku í Félagi skipstjórnarmanna frá stofnun þess árið 2004. Hann er þjóðþekktur af störfum sínum fyrir skipstjórnarmenn, var stýrimaður og skipstjóri um árabil. Árni gegndi formennsku í Skipstjóra og stýrimannafélagi Norðlendinga frá 1996, var forseti Farmanna- og fiskimannasambands Íslands frá 2001 þar til það var lagt niður árið 2017 þegar Félag skipstjórnarmanna tók við hlutverki þess.