„Hér eru alvöru stemning í gangi sem jafnast á við venjulega vertíð,“ segir Sigurður Arnar Kristmundsson, hafnarstjóri í Grindavík, þar sem eru mikil og vaxandi umsvif.
Nýlega sagði frá því á vef Grindavíkurbæjar að áttföld aukning hefði orðið á lönduðum bolfiski fyrstu þrjá mánuði ársins samanborið við 2024. „Landaður bolfiskur var í fyrra 12,5 prósent í Grindavíkurhöfn miðað við 2023 en erum nú komin í tæplega 60 prósent,“ sagði í færslunni.
„Þetta snýr helst að því að bærinn er meira opinn en áður. Menn eru viljugri til að koma og landa þegar bærinn er ekki á hættustigi. Og koma jafnvel og landa þótt það sé hættustig. Svo er sjaldnar neyðarstig og þau standa skemur. Það sem hefur helst komið í veg fyrir að þetta sé enn meira er að febrúar var eiginlega ónýtur fyrir okkur út af veðri,“ tekur Sigurður hafnarstjóri fram.
„Það er bara líf og fjör“
Sem dæmi um umsvifin nefnir Sigurður að í gær hafi skuttogararnir Hulda Björnsdóttir frá Þorbirni og Áskell og Vörður frá Gjögri og línubátarnir Páll Jónsson og Sighvatur frá Vísi komið til löndunar auk nokkurra minni línubáta. Í landi eru að sögn Sigurðar nú full afköst hjá bæði Einhamri og Vísi. Mikið fari um markaðinn.
„Gjögursbátarnir senda oftast fisk í sína vinnslu á Grenivík og svo eitthvað á markað. Þannig að það er full sving hjá öllum; í þjónustu, á markaði, í löndunarþjónustu, í vigtun og hjá höfninni. Það er bara líf og fjör,“ segir hafnarstjórinn.
Verið sé að laga fráveitu bæjarins og undirbúa bæinn að öðru leyti fyrir að fara af stað aftur.
Tekur tíma en er örugglega á réttri leið
„Útgerðarmenn hér eru að standa við það að senda skip sín hér til löndunar þrátt að það geti verið styttra í næstu höfn. Þeir standa af fullum hug með bænum, sem er ótrúlega mikilvægt og verðmætt,“ segir Sigurður. Tekjur hafnarinnar hafi vitanlega fallið mikið í fyrra.
„Höfnin mun náttúrlega ekki ná sér að fullu þetta árið en þegar svona er þá er maður vongóður. Það tekur tíma að fá þetta hundrað prósent til baka en þetta er alveg örugglega á réttri leið,“ segir Sigurður Arnar Kristmundsson.