Fjárfestingum verður slegið á frest og grípa þarf til aðgerða til að skera niður í rekstri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum, VSV, verði frumvarp um breytingar á veiðigjöldum að lögum. Rekstrartap samstæðu VSV á síðasta ári nam um 500 milljónum króna en hefði orðið 1,2 milljarðar króna ef reiknað væri út frá þeim breytingum á veiðigjöldum sem boðaðar eru í frumvarpinu. Við þessu verði að bregðast, segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, jafnan nefndur Binni, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, sem var í viðtali í páskablaði Fiskifrétta sem kom út í gær.

Ekkert tilliti tekið til ábendinga

„Það er um það talað hve illa undirbúið þetta mál er hjá ríkisstjórn inni sem nú hefur komið berlega í ljós,“ segir Binni og vísar þar til frétta um að engin merki séu að um að tillit hafi verið tekið til ábendinga embættismanna í minnisblöðum til stjórnarflokkanna um verðmyndun, skekkju á norskum markaði og nauðsyn mats á áhrifum á fyrirtæki og byggðarlög. Binni segir til að mynda augljóst að skattleggja eigi sjávarútveg á Íslandi út frá makrílverðum í Noregi. „Af hverju eru þá ekki lögð á fasteignagjöld í Vestmannaeyjum sem miðast við fasteignaverð í Gambíu eða Gana? Að miða makrílverð á Íslandi við makrílverð í Noregi er jafn vitlaus hugmynd,“ segir Binni og útskýrir það nánar.

Sami fiskur en ólíku saman að jafna

Hann segir að makríll veiddur af Íslendingum og makríll veiddur af Norðmönnum sé vissulega sami fiskurinn og heiti sama nafni. Makrílveiðar þessara tveggja þjóða séu þó gjörólíkar. Norsk skip stundi aðallega nótaveiðar á makríl. Þau fara út og um leið og þau hafa fengið afla, eftir fáein köst, er fiskurinn boðinn upp. Skipin bjóða upp 50, 100 eða 400 tonn, allt eftir árangri dagsins. Fiskurinn er yfirleitt átulaus, stór og feitur eftir langa ætisleiðangra norður í höf, þar með talið á Íslandsmið, og er á göngu til hrygningarstöðvanna vestur af Bretlandseyjum. Hann er spriklandi ferskur og fer í hæsta gæðaflokk. Íslenski uppsjávarflotinn stundi sínar veiðar að stærstum hluta í Síldarsmugunni, þegar fiskurinn er í ætisleit, og siglingin þangað tekur að jafnaði tvo sólarhringa frá Eyjum. Skipin eru einn til fjóra sólarhringa þar að veiðum til að fylla sig og fiskurinn er rúmlega vikugamall þegar honum er landað á Íslandi. Þarna sé ólíku saman að jafna þegar kemur að verðmæti hráefnisins.

Á síðasta ári unnu 420 manns hjá Vinnslustöðinni.
Á síðasta ári unnu 420 manns hjá Vinnslustöðinni.

Vitlaus samanburður

„Það segir sig sjálft að þetta er ekki sama vara og af nótaveiðum þeirra norsku. Þess vegna er líka útilokað að miða markaðsverð á makríl íslensku skipanna við afla norsku skipanna. Þetta er nánast eins og að leggja á fasteignagjöld í Vestmannaeyjum og miða við fasteignamarkaðinn í miðborg London. Árið 2019 tók ég saman meðal útflutningsverðmæti makríls frá upphafi veiða, þegar ég var að svara grein Kára Stefánssonar sem hann birti í Fréttablaðinu það ár og kallaði Landráð? Sú grein var uppfull af þvælu og gekk út á að sjávarútvegurinn hefði stolið 300 milljörðum króna við að landa makrílnum á Íslandi. Þar var lagt upp með sama samanburð á norsku útflutningsverði makríls og vitlausum samanburði við Ísland. Við einfalda samantekt á útflutningsverðmætum makríls, og því að áætla verðmæti þess hluta makríls sem fór til bræðslu, komst ég að þeirri niðurstöðu að útflutningsverðmæti landaðs makríls á kg væri um 130 kr. árin 2011-2018. Á sama tíma var útflutningsverð á norskum makríl til Japan um 220-270 jen, eða tvöfalt hærra. Mér sýnist sama þvælan vera uppi á teningnum hjá atvinnuvegaráðherra þegar hún fjallar um makrílinn. Ég þarf að uppfæra þessa samantekt mína sem er mjög einföld.“ segir Binni.

Þegar fjárfestingar í sjávarútvegi hrundu

Þegar frumvarpið birtist í samráðsgátt hófst strax vinna hjá Vinnslustöðinni að meta hver áhrifin gætu orðið á fyrirtækið. Það tók lengri tíma að skoða alla enda þess máls en þá einu viku sem það var í samráðsgátt og nú sé fresturinn liðinn til að birta þar athugasemdir.

„Sú mynd sem birtist mér eftir þessa skoðun er mun alvarlegri en upphaflega virtist. Veiðigjöldin eru nú 33% af reiknuðum hagnaði sjávarútvegsfyrirtækja en það stendur til að tvöfalda þau upp í næstum 70%. Við stefnum því inn í sama skattlagningarumhverfi og ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna stefndu að í ríkisstjórnartíð þeirra 2009 til 2012, þ.e. að veiðigjöld yrðu reiknuð út frá 70% af hagnaði sjávarútvegsins og allir sáu að var glapræði. En þetta varð til þess að fjárfestingar í sjávarútvegi hrundu eins og mun gerast núna.“

Fyrir rúmu ári hófust framkvæmdir við nýtt húsnæði VSV sem á að taka við af gömlu húsunum sem eru úr sér gengin. Binni segir að aldrei hefði verið ráðist í þær framkvæmdir hefði frumvarpið verið komið fram þegar framkvæmdir hófust fyrir rúmu ári síðan. Á teikniborðinu voru líka tvö 3ja mílna skip og var búið að bjóða smíðina út. Henni hefur nú verið slegið á frest. Við þessar veiðar verður líklegast notast við eldri skip í flota VSV sem eru Drangavík VE sem er komin á fertugsaldur og Kap VE sem er að verða 60 ára gamalt skip. Aðbúnaður í þessum skipum er ekki í takt við það sem best gerist fyrir sjómenn, rekstraröryggi þeirra er ekki eins og á nýjum skipum og olíueyðslan meiri.

Vaxtaberandi skuldir 34 milljarðar kr.

„Það fyrsta sem við þurfum að huga að núna er að greiða niður skuldir fyrirtækisins. Við keyptum útgerðarfélagið ÓS fyrir tveimur árum sem og fiskvinnslufyrirtækið Leo Seafood. Á svipuðum tíma erum við að klára nýja húsið sem er fjárfesting upp á tæpa þrjá milljarða.“

Loðnuhrognavinnsla hefur verið snar þáttur í starfsemi Vinnslustöðvarinnar en þó ekki undanfarnar tvær vertíðir. Mynd/Óskar P Friðriksson
Loðnuhrognavinnsla hefur verið snar þáttur í starfsemi Vinnslustöðvarinnar en þó ekki undanfarnar tvær vertíðir. Mynd/Óskar P Friðriksson

Fjárfestingar VSV í húsum, búnaði og skipum í Vestmannaeyjum á undanförnum átta árum nemur 13 milljörðum króna. Hluti þess hefur verið greiddur niður en hluti fjárfestinganna verið fjármagnaður með lánum til 25 ára. „Vaxtaberandi skuldir samstæðu VSV eru nú 34 milljarðar og þær þurfum við að greiða. Við erum nauðbeygð til að slá á frest frekari fjárfestingum þótt þær blasi við eins og í tilfelli endurnýjunar Kap og Drangavíkur. En það blasir líka við að við verðum að skera niður kostnað. Stærsti kostnaðarliðurinn í rekstri Vinnslustöðvarinnar sem við höfum vald á eru laun eða nálægt 30% alls kostnaðar.“

Launakostnaður 5,2 milljarðar í fyrra

Á síðasta ári unnu 420 manns hjá Vinnslustöðinni og var launakostnaðurinn það ár 5,2 milljarðar kr. Binni segir að það hljóti að vera öllum ljóst að bregðast verði við taprekstri og yfirvofandi veiðigjöldum. „Fyrst í stað stöðvum við allar fjárfestingar og frestum endurbótum. Við verðum síðan að sjá hvort ríkisstjórnin muni knýja þessar breytingar í gegn. Ef af þeim verður munum við þurfa að ráðast í sársaukafullar breytingar í rekstri félagsins. Ég er ekki löglærður maður en samkvæmt íslenskum skatta lögum held ég að það hljóti að þurfa að leggja til grundvallar hagnað sem verður af veiðum á Íslandi en ekki Noregi. Þetta er grundvallaratriði sem þarf að skera úr um,“ segir Binni.