Hafrannsóknastofnun lagði síðdegis til að loðnuafli fiskveiðiárið 2022/2023 verði allt að 460 þúsund tonnum sem er 184 þúsund tonna aukning frá síðustu ráðgjöf. Aukningin byggir á mælingum úti fyrir Húnaflóa upp úr miðjum febrúar. Álsey VE reyndi fyrir sér í Húnaflóanum í gær og í morgun og afraksturinn var þó aðeins 70 tonn. Skipið var á leið suður eftir þar sem loðna veiðist í talsverðu magni úti fyrir Þorlákshöfn.

Þegar rætt var við Jón Axelsson skipstjóra um kvöldmatarleytið var stutt í að skipið kæmist á áfangastað, veiðislóðina úti fyrir sunnanverðu Reykjanesinu.

„Við erum á keyrslu á leiðinni suður fyrir Reykjanes. Við leituðum í Húnaflóa en sáum eitthvað mjög lítið og það var mjög dreift og erfitt að eiga við. Ég ætla að vona að ný ráðgjöf sé ekki einungis sýnd veiði en ekki gefin og ætla að leyfa mér að vona að þarna sé bara mikið af loðnu. Það er líka erfitt að við vorum þarna einir og þetta er stórt hafsvæði. Við kíkjum bara á þetta seinna,“ segir Jón.

Jón Axelsson skipstjóri á Álsey VE. FF MYND/Óskar P. Friðriksson
Jón Axelsson skipstjóri á Álsey VE. FF MYND/Óskar P. Friðriksson
© Óskar P. Friðriksson (Óskar P. Friðriksson)

Álsey hafði landað á Þórshöfn þar sem Ísfélag Vestmannaeyja rekur uppsjávarvinnslu. Eftir löndun var ákveðið að athuga aðstæður í Húnaflóa enda þó ekki nema tíu tíma sigling þaðan frá Þórshöfn og freistandi að skoða stöðuna þar.

„Við vorum í vesturkantinum á Húnafjarðarálnum og inn með ströndunum og alveg út að Horni. Svo leituðum við vestur undir Kögurgrunn en sáum því miður ekki neitt sem gerði eitthvað fyrir okkur. Við verðum úti fyrir Þorlákshöfn í nótt.“

Kastað var einu sinni í Húnaflóanum og afraksturinn var ekki nema 70 tonn. Jón segir þetta hafa verið blandaða loðnu af öllum stærðum og talsverð áta í henni. Hrognafyllingin var um 16%.

„Alla þá tíð sem ég hef verið á loðnuveiðum hefur loðna hrygnt þarna inni Húnaflóa og meðfram öllu Norðurlandinu; Skagafirði, Eyjafirði og Skjálfanda. Þarna hefur alltaf verið eitthvert loðnurak en svo snýst málið bara um hvort loðnan sé veiðanleg eður ei. Eitt og eitt ár hafa myndast fyrir norðan þéttar torfur sem við höfum náð að krafla í. En samkvæmt minni reynslu hefur það ekki verið neitt til þess að bera uppi veiði hjá öllum flotanum. En það gæti hugsanlega verið eitthvað annað uppi á teningnum núna.“

Varðandi tilmæli Hafró um að 2/3 hlutar aukningarinnar núna verði veiddir fyrir norðan segir Jón að menn verði bara að vera jákvæðir. Hann telur ekki ólíklegt að eitthvað af því sem Hafró mældi þarna fari vestur eftir landinu og endi með því að hrygna í Breiðafirðinum. Það hafi gerst áður.

„13.-14. febrúar 2015 veiddum við á svipuðum slóðum. Þá æddi loðnan vestur eftir landinu í suðurátt og hrygndi í Breiðafirði. Þetta er svo breytilegt á milli ára. Engin vertíð er eins. En það er mikil pressa núna, næsta mánuð, að reyna að kippa sem mestu upp og vonandi verður veðrið til friðs en það er útlit fyrir kaldafýlu næstu daga.“