Undanfarnar vikur hefur frystitogarinn Cuxhaven frá Deutsche Fischfang-Union GMBH & Co. verið í slipp á Akureyri.
„Þetta er almenn slipptaka með almennu viðhaldi og svo er meðal annars verið að öxuldraga hann og það eru viðgerðir á stýri og öllu tilheyrandi,“ segir Bjarni Pétursson, sviðsstjóri skipaþjónustu Slippsins á Akureyri.

Heppnir með veður
Að sögn Bjarna var Cuxhaven tekinn upp 12. febrúar síðastliðinn og þá voru áætlaðar þrjár vikur í verkið. Auk þess sem áður greinir má nefna að skipt er um timbur á dekki og skipið málað á bol og ofan dekks og settur á það botnfarvi. „Það er mjög fjölbreytt sem verið er að vinna í honum,“ segir hann.
Veðrið þennan tíma hefur að hluta verið einstaklega milt. „Við höfum verið mjög heppnir með veður, búið að vera þurrt og hiti. Það hjálpar mjög mikið,“ segir Bjarni.
Fá fleiri á álagspunktum
Verkefnastaðan hjá slippnum er að sögn Bjarna mjög góð langt fram á næsta haust. „Það eru allir orðnir tímanlega í því að búa til gott skipulag sem snýr að öllu í slipptökunni. Ef það þarf að kaupa varahluti eða ákveðna sérfræðiþjónustu þá er gott að vera tímanlega. Það þarf allt að haldast í hendur,“ segir hann.
Í heild vinna um 150 manns hjá Slippnum Akureyri og þar af í kringum sjötíu til áttatíu í skipaviðgerðunum. „Og í álagspunktum sækjum við fleiri starfsmenn,“ segir Bjarni. „Það eru fjölmörg verkefni fram undan sem eru bæði hjá okkur og framleiðslu megin og við erum líka að taka verkefni saman. Það er nóg að gera.“