Elías Guðmundsson, framkvæmdastjóri Fisherman á Suðureyri, segir uppsveiflu framundan nú þegar hillir undir lok heimsfaraldursins. Hann sér mikil tækifæri í útflutningi á unnum sjávarafurðum í neytendapakkningum.

„Þetta er gjörbreytt landslag. Ég get staðfest það,“ segir Elías. „Það eru æðislegir tímar núna, ef við getum sagt svo. Það er rosalega mikil spenna í öllum að takast á við uppsveifluna sem núna er byrjuð. Við höfum alla vega í okkar fyrirtæki ekki séð svona mikið líf lengi.“

Elías flutti erindi á vegum Þekkingarseturs Vestmannaeyja nýverið þar sem hann rakti sögu fyrirtækisins og og velti sérstaklega fyrir sér möguleikunum á fullvinnslu íslensks sjávarfangs í neytendapakkningar, bæði til útflutnings og til sölu hér innanlands.

Hann sagði þar að rétt áður en covid skall á hafi 15.000 gestir verið búnir að bóka komu til Fisherman á Suðureyri, bæði gestir af skemmtiferðaskipum og aðrir.

„Við vorum komnir á mjög góðan stað með það sem við vorum að gera þá, en höfum notað covid tímabilið til að endurskilgreina og strúktúra fyrirtækið upp á nýtt í takt við langtímastefnu sem við teljum að eigi inni til að sækja verulega á.“

Elías sagðist sannfærður um að útflutningur á heilum ferskum fisk muni aukast verulega á næstu misserum, en taldi engu að síður að við sem þjóð værum „að tapa verðmætum með því að selja fiskinn ekki með meiri virðisauka.“

Hann tók dæmi af lifrardós frá Fisherman sem kostar 16 dollara komin í netsölu í Bandaríkjunum.

„Ég held að við séum að borga 100 eða 150 krónur fyrir dósina í framleiðslu. Þannig að virðisaukinn í þessu ferðalagi er töluverður.“

Stefnt á uppbyggingu

Fisherman stefnir á uppbyggingu bæði hérlendis og erlendis. Búið er að setja upp sölusíður í Þýskalandi, Frakklandi og Bandaríkjunum og verið er að fá söluaðila á þessum mörkuðum til þess að kynna þar vörurnar og selja.

„Því tengt má segja að við erum að ljúka við að stofna dótturfyrirtæki í Hollandi sem verður með vöruhús fyrir okkur og sjálfstæða dreifingu í Evrópu. Við erum að vonast til þess að það byrji bara núna í júní og það verður gríðarleg umbylting í því sem við erum að gera,“ segir Elías.

Þá hyggur Fisherman á frekari uppbyggingu hér innanlands.

„Við byrjuðum núna fyrir helgi að byggja nýtt reykhús og það verður á fullu núna í sumar, stefnt að því að flytja inn í þetta eftir næstu áramót.“

Þetta verður um 700 fermetra hús byggt í stíl við þá ímynd sem Fisherman hefur byggt starfsemi sína á.

Einnig hefur verið gerður samningur við Ísafjarðarbæ um fjögurra hektara lóð á Suðureyri þar sem Elías sér fyrir sér framtíðarvöxt fyrirtækisins.

„Þessi vara hefur fengið gríðarlegan meðbyr og virkilega gaman að kynna þetta, saman hvar við erum að kynna í heiminum,“ segir Elías.

„Það hefur lengi verið mýta á Íslandi að fullvinnsla neytendavara í sjávarafurðum gangi ekki upp. Það er ekki lengur tilfellið. Við erum stundum bara klaufar að segja frá því.“